Tveir sveitarstjórnarmenn í Árneshreppi gerðu á fundi hreppsnefndar í dag alvarlegar athugasemdir við það vinnulag sem viðhaft var við gerð minnisblaðs lögmannsstofunnar Sóknar um lögheimilisflutninga í hreppinn. Í fréttum hefur ýmist komið fram að minnisblaðið hafi verið unnið fyrir oddvita hreppsins eða Árneshrepp. Við það síðarnefnda kannast aðrir hreppsnefndarmenn ekki og oddvitinn segir „tvennum sögum“ fara af því hver átti frumkvæði að ritun þess: Hann sjálfur eða lögmannsstofan.
Sautján manns fluttu lögheimili sitt í hreppinn á tveggja vikna tímabili í lok apríl og byrjun maí. Á minnisblaðinu segir að litið sé svo á að um „málamyndaflutninga“ sé að ræða vegna sveitarstjórnarkosninganna í lok maí. Miklar deilur hafa staðið um byggingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í hreppnum. Þrír sveitarstjórnarmenn eru fylgjandi virkjuninni en tveir eru henni andvígir. Ákvarðanir um framhald málsins hvíla á herðum sveitarstjórnarmanna.
Minnisblaðið var lagt fram til kynningar á hreppsnefndarfundi í Árneshreppi í dag. Fyrsta dagskrármál fundarins var afgreiðsla ársreikninga og við þá umræðu kom fram að Vesturverk, sem hyggst reisa Hvalárvirkjun, hefði greitt alla reikninga lögmannsstofunnar Sóknar, m.a. reikninga sem ekki tengdust fyrirhugaðri Hvalálvirkjun og skipulagsvinnu í tengslum við hana.
Ingólfur Benediktsson varaoddviti og Hrefna Þorvaldsdóttir hreppsnefndarmaður spurðu Evu Sigurbjörnsdóttur oddvita út í tilurð minnisblaðsins á fundinum og hvers vegna það hefði ratað til Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns, um svipað leyti og hún sendi hreppsnefndarmönnum það. Kristinn birti efni blaðsins á bloggsíðu sinni og í kjölfarið hófst mikil fjölmiðlafjöllun. „Það virðist vera á reiki hver fékk þetta minnisblað fyrst. Ég vil fá afrit af tölvupóstsamskiptum milli þín og Kristins H. Gunnarssonar, ég vil fá afrit af öllum þessum tölvupóstsamskiptum,“ sagði Ingólfur.
Var þessi beiðni hans færð til bókar en Eva svaraði því þegar á fundinum að hún myndi verða við henni. Fullyrti hún að minnisblaðið hefði fyrst verið sent hreppsnefndarmönnum og síðar sama dag Kristni. „Ég er að segja dagsatt,“ svaraði Eva.
Spurði varaoddvitinn hver væri tilgangurinn með því að afhenda Kristni H. Gunnarssyni minnisblaðið. „Er hann fréttamaður?“
Eva sagðist líta svo á. „Hann skrifaði mér og spurði frétta. Ég sagði að ég ætlaði ekki að úttala mig neitt um þetta en að ég ætlaði að senda honum þetta minnisblað. Það hef ég gert en ekki nokkuð annað.“
Ingólfur benti á að Jón Jónsson, lögmaður Sóknar, hefði sagt „skýrum stöfum“ að minnisblaðið væri tekið saman að beiðni oddvita. Eva lýsti því þannig að hún teldi það óljóst en að málið hefði komið upp í samtali sínu við lögfræðinginn. Ingólfur spurði hvort það væri þannig að lögfræðingurinn hefði tekið þetta upp hjá sjálfum sér, að skrifa minnisblaðið, og hvert reikningurinn færi þá. „Er hann farinn að stjórna hérna?“
Gerði Hrefna athugasemd við að ekkert hefði verið rætt um minnisblaðið eða vinnuna við það á fundi hreppsnefndar í síðustu viku, degi eftir að minnisblaðið er dagsett. „Þú ert oddviti Árneshrepps, við erum hreppsnefndin. Þú átt að upplýsa okkur um þetta,“ sagði Hrefna á fundinum.
Spurð hvort hún hefði sent Kristni H. Gunnarssyni minnisblaðið umtalaða sagði Eva svo vera. Kristinn birti efni bréfsins á bloggsíðu sinni að kvöldi 10. maí. Efni þess var svo forsíðufrétt Fréttablaðsins daginn eftir og rataði svo í fleiri fjölmiðla þann sama dag. Sagðist Eva ekki hafa viljað fjölmiðlafár í kringum málið en hafa talið ljóst að það myndi spyrjast út enda hefðu sögur verið komnar á kreik um lögheimilisflutningana.
Hreppsnefndarmenn veltu allir fyrir sér hvaðan listi yfir þá sem flutt hefðu lögheimili sitt, og sem endað hefði á bloggsíðu Kristins H. Gunnarssonar daginn eftir að hann birti færslu sína um minnisblaðið, væri kominn. Sagðist Ingólfur hafa spurt Þjóðskrá, verandi formaður kjörnefndar Árneshrepps, hvort hann gæti fengið hann afhentan en svo reyndist ekki vera. Aðeins sveitarstjórn geti fengið slíka samantekt frá Þjóðskrá. Eva sagði að listinn væri ekki frá sér kominn, svo mikið væri víst.
Á umtöluðum lista Kristins H. Gunnarssonar kemur fram að flestir hinna sautján manna séu að flytja lögheimili sín á þrjá staði í Árneshreppi. Einhverjir hafa gefið skýringar á flutningnum í fjölmiðlum, aðrir ekki. Hafa þær skýringar m.a. verið gefnar að um sé að ræða háskólanema sem eru að flytja lögheimili sitt í foreldrahús og hjón sem eiga hús í hreppnum og eru þar löngum stundum á hverju ári. Þá hefur verið bent á að ekki sé um einsleitan hóp að ræða og að ekki séu tengsl milli allra þeirra sem fluttu.
Þjóðskrá hefur óskað eftir því að fólkið geri grein fyrir flutningnum og hefur m.a. fengið lögregluna til þess að fara um Árneshrepp og kanna hvort hinir nýju íbúar séu þar búsettir. Hefur Þjóðskrá sagt að málið hafi komið upp við eftirlit innan stofnunarinnar og að athygli hafi vakið að svo margir væru að flytja lögheimili sitt í þetta fámennasta sveitarfélag landsins á svo stuttum tíma. Sagði Ástríður Jóhannesdóttir, staðgengill forstjóra Þjóðskrár, að þetta væri lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Vel kynni að vera að eðlilegar skýringar fyndust á málinu.
Hvað vinnu við minnisblað lögmannsstofunnar Sóknar varðar benti Ingólfur varaoddviti á á fundinum að það kæmi hreppsnefnd ekki við hverjir flyttu í hreppinn. Eva sagði hins vegar að hún teldi að þau ættu að hafa á því skoðun „hverjir flytja í sveitina og af hverju“ en í fréttum hefur komið fram að einhverjir þeirra sem flutt hafa lögheimili sitt í hreppinn hafi gert það í óþökk eigenda viðkomandi húsa.
Meðan á fundi hreppsnefndar Árneshrepps stóð í dag kom sending að sunnan í pósti: Kjörskrá hreppsins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar sem eftir á að samþykkja. Hrefna benti á að ef ekki yrði fjallað um kjörskrána á morgun, þriðjudag, „verður ekkert kosið hér“. Tíminn væri að hlaupa frá þeim. Því hefur aukafundur verði boðaður í hreppsnefndinni á morgun. Þó er ljóst að Þjóðskrá á enn eftir að taka ákvörðun um lögheimilisflutningana en málið er enn til skoðunar hjá stofnuninni.
Óhlutbundnar kosningar verða í Árneshreppi í vor eins og síðustu áratugi. Það þýðir að allir íbúar eru í kjöri nema þeir sem hafa ástæður til að biðjast undan því. Ingólfur og Hrefna hafa bæði beðist undan endurkjöri.