Ýmsar ástæður fyrir flutningi í Árneshrepp

Átján manns hafa flutt lögheimili sitt í Árneshrepp að undanförnu. …
Átján manns hafa flutt lögheimili sitt í Árneshrepp að undanförnu. Þjóðskrá skoðar lögheimilisflutninga þeirra. mbl.is/Golli

Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um lögheimilisflutninga átján einstaklinga til Árneshrepps, sem var fámennasta sveitarfélag landsins í upphafi árs. Þjóðskrá hefur skoðað flutningana sérstaklega, þar sem þeir þykja miklir miðað við höfðatölu í hreppnum. Hefur stofnunin meðal annars nýtt sér heimild í lögum til að fá lögreglu til að kanna hvort einstaklingar séu í raun til heimilis á tilteknum heimilisföngum.

Mbl.is reyndi að setja sig í samband við alla nýbúa í Árneshreppi til þess að forvitnast um ástæður lögheimilisflutninganna, svo skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar, en látið hefur verið að því liggja að um sé að ræða smölun til að kjósa ákveðna einstaklinga í hreppsnefndina, sem mun taka ákvörðun um byggingu Hvalárvirkjunar.

Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður sagði til dæmis í samtali við mbl.is í morgun að það væri „alveg augljóst mál“ að þeir sem hefðu nýverið flutt lögheimili sitt í hreppinn væru að gera það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir virkjunarframkvæmdir, en Kristinn birti lista með nöfnum þeirra átján sem flutt hafa lögheimili sín á þrjú mismunandi heimilisföng í hreppnum að undanförnu. Ellefu manns hafa flutt lögheimili sitt á bæinn Dranga, þrír í Seljanes og fjórir í Kaupfélagshús í Norðurfirði.

Dætur Ólafs Valssonar kaupfélagsstjóra fluttu lögheimili sitt í Kaupfélagshúsið í Norðurfirði, en í yfirlýsingu frá Ólafi kom fram að þær væru báðar háskólanemar og samkvæmt lögum um lögheimili er háskólanemum heimilt að halda lögheimili sínu á meðan þeir fara annað til náms.

Í Kaupfélagshúsið hafa einnig feðginin Hrafn Jökulsson og Þórhildur Hrafnsdóttur nýverið flutt lögheimili sitt. Hann var undrandi á forvitni blaðamanns um heimilishagi sína.

„Mér finnst sérkennilegt á árinu 2018 að þurfa að rökstyðja það hvar ég á heima og af hverju og á hvaða forsendum,“ segir Hrafn. „Ég held að allir sem til mín þekkja viti að ég hef í 40 ár verið einskonar ættleiddur sonur strandanna, var þar sumrin mörg á bernskuárunum og bjó þar síðan í mörg ár og hef haldið tengslum við mitt góða vinafólk og mína sveit í öll þessi ár og þarna á dóttir mín heima. Það að ég ákveði að flytja þangað sem dóttir mín á heima á ekki að þarfnast meiri rökstuðnings.“

Hrafn segir það „absúrd“ að lögreglan hafi barið að dyrum á lögheimili hans og spurt barnsmóður hans að því hvar hann hefði vaknað þann morguninn og sömuleiðis að því hvort þau tvö væru byrjuð saman aftur.

„Hér eru augljóslega gríðarlegir hagsmunir í húfi, hagsmunir sem minnst snerta núverandi íbúa Árneshrepps. Hér eru peningar í húfi. Gríðarlegir peningar. Það að ég þurfi að sitja undir því að fyrrverandi varaforseti Alþingis [Kristinn H. Gunnarsson] spyrji mig hvar ég vakna á morgnana er algjörlega fáheyrt, en sá góði maður virðist því miður vera handbendi virkjunarsinna,“ segir Hrafn.

Fjölskyldan flyst að Seljanesi

Ein fjölskylda hefur flutt lögheimili sitt að Seljanesi, þau Jón Leifur Óskarsson, Lára Ingólfsdóttir og sonur þeirra Birkir Jónsson. „Tengingin mín við Árneshrepp er sú að konan mín er fædd í Ingólfsfirði,“ sagði Jón Leifur við fyrirspurn blaðamanns, en hann vildi ekki tjá sig frekar um lögheimilisflutningana.

Birkir segir að fjölskyldan sé að flytja norður á Strandir, á heimahaga móður sinnar. „Mamma og pabbi fluttu þarna og ég ætla að flytja með þeim, flytja heim aftur,“ segir Birkir. Aðspurður að því hvort flutningarnir tengist eitthvað virkjunaráformum í sveitarfélaginu segir hann svo ekki vera.

„Við höfum lengi viljað fara aftur, það er bara stefnan og við erum á leiðinni þangað,“ segir Birkir.

Margir skráðir til heimilis að Dröngum

Ellefu manns hafa flutt lögheimili sitt að Dröngum. Fyrst skal þar nefna þau Óskar Kristinsson og Fríðu Ingimarsdóttur konu hans, en Óskar er uppalinn að Dröngum og einn landeigenda þar. Hann sagði í samtali við RÚV s.l. sunnudag að hann kannaðist ekki við hina níu einstaklingana sem flutt hafa lögheimili sitt að Dröngum og að flutningarnir væru í óþökk landeigenda.

Kristján E. Karlsson auglýsingateiknari er einn hinna níu og segist hann hafa fengið samþykki landeiganda fyrir lögheimilisflutningum sínum. Hann segist vera að fara vestur að vinna að tímabundnu verkefni að hann muni hafa aðsetur að Dröngum á meðan á því stendur. Kristján segist ekki hafa skipulagt að flytja lögheimili sitt í Árneshrepp í samráði við aðra sem einnig fluttu lögheimili sitt að Dröngum á svipuðum tíma.

„Nei, þetta eru bara persónulegar ástæður,“ segir Kristján, sem kannast ennfremur ekki við það hafa flutt lögheimili sitt í hreppinn til að hafa einhver áhrif á kosningar til hreppsnefndar. Hann segir opinbera aðila ekki hafa haft samband við sig í kjölfar þess að hann flutti lögheimili sitt, að öðru leyti en því að hann hafi fengið bréf frá Þjóðskrá.

Sighvatur Lárusson, sem var áður með lögheimili í Rangárþingi ytra, flutti það á Dranga. „Ég á eftir að svara Þjóðskrá,“ var það eina sem Sighvatur hafði um málið að segja að svo stöddu er mbl.is leitaði eftir skýringum á flutningnum. Ólina Margrét Ásgeirsdóttir, kona Sighvats, og Brynhildur Sæmundsdóttir, tengdamóðir hans, eru einnig meðal þeirra sem fluttu lögheimili sitt að Dröngum.

Kristín Ómarsdóttir rithöfundur flutti lögheimili sitt sömuleiðis að Dröngum, en hún vildi ekki tjá sig við blaðamann um flutningana að neinu leyti.

Fjórir til viðbótar hafa flutt lögheimili sitt að Dröngum, en það eru þau Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Gunnhildur Hauksdóttir, Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir og Ásgeir Örn Arnarson. Ekki hefur náðst í þau í dag þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka