Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti kjörskrá og undirritaði á fundi sínum síðdegis í dag vegna sveitarstjórnarkosninga í lok mánaðarins. Fyrirvari var þó gerður við hana í ljósi þess að Þjóðskrá Íslands kannar nú lögmæti lögheimilisflutninga í hreppinn á tveggja vikna tímabili í aðdraganda kosninganna.
„Við gerðum fyrirvara um breytingar ef einhverjar verða. Í kjörskránni eru nöfn sem misjafnar skoðanir eru á hvort eigi að vera þar eða ekki. Þetta veltur á því hvort Þjóðskrá staðfestir, tekur út einhver nöfn eða bendir okkur á að einhverjir eigi ekki að vera þarna,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps og vísar til áðurnefndra lögheimilisflutninga.
Aðspurð segir hún að engin nöfn hafi verið fjarlægð af kjörstofni Þjóðskrár sem barst hreppnefndinni í gær og að allir sem hafi verið skráðir til heimilis í hreppnum 5. maí, þ.e. á viðmiðunardegi kjörskrárstofns, séu á kjörskránni sem stendur.
„Þjóðskrá klárar þetta mál öðru hvoru megin við helgina og þá munum við funda aftur og fara eftir þeim tilmælum sem við fáum,“ segir Eva.
Fjöldi íbúa í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins, samkvæmt lögheimilisskráningu hefur verið sagður hafa aukist um 40% síðustu tvær vikurnar fyrir 5. maí sl. Lögheimilisflutningarnir hafa m.a. verið kallaðir „fjandsamleg yfirtaka“ af því tilefni, en sveitarstjórn í Árneshreppi mun miklu ráða um mögulega byggingu Hvalárvirkjunar. Aðspurð segir Eva að alls hafi 43 verið á kjörskrá vegna alþingiskosninga síðasta haust.
„Síðan bættust við íbúar í kringum áramót sem býr hér í sveitinni. Ég veit ekki hvenær þetta fólk flutti lögheimili sitt. Frá 24. til 4. eða 5. maí fjölgaði í íbúahópnum um u.þ.b. 40%,“ segir hún.
Eva kveðst aðspurð ekki muna nákvæmlega hve margir séu á kjörskránni, en þeir séu u.þ.b. 64.
Kjörskráin verður til sýnis fyrir almenning í verslun hreppsins, líkt og vaninn er fyrir hverjar kosningar að sögn Evu. „Verslunin er sá staður sem er mest opinber. Hún er oftar opin en skrifstofa hreppsins, þar eru engir aðrir starfsmenn en ég sjálf. Þetta hefur alltaf fengið að liggja frammi í versluninni,“ segir hún.
Hreppsnefndin fundar næst þegar afgreiðslu Þjóðskrár lýkur.