Funda um kjörskrána í næstu viku

Eva Sigurbjörnsdóttir er oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir er oddviti Árneshrepps. mbl.is/Golli

Stefnt er að því að hreppsnefnd Árneshrepps komi saman á þriðjudag og taki afstöðu til niðurfellingar á lögheimilisskráningum fólks í hreppinn af hálfu Þjóðskrár Íslands. Fundartími hefur ekki verið endanlega ákveðinn. Nefndin samþykkti kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí nk. á miðvikudag með fyrirvara um niðurstöðu Þjóðskrár.

Þjóðskrá tók fyrir átján tilfelli lögheimilisflutninga að eigin frumkvæði vegna óvenjulegs fjölda slíkra skráninga síðustu tvær vikurnar fyrir viðmiðunardag kjörskrárstofns, 5. maí sl. Niðurstaða um lögheimili liggur fyrir í tólf málanna, en hin bíða úrlausnar fram í næstu viku. Hreppsnefndin mun ekki taka afstöðu um áhrif þessa á kjörskrá fyrr en niðurstaða er komin í öll málin.

Nefndinni hafa hvorki borist gögn um þau ellefu tilvik þar sem lögheimilisflutningar voru felldir niður né eitt tilvik þar sem viðkomandi einstaklingur óskaði sjálfur eftir leiðréttingu lögheimilis. Yfirgnæfandi líkur voru taldar á að umræddir einstaklingar hefðu ekki fasta búsetu samkvæmt lögheimilislögum þar sem þeir höfðu skráð lögheimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert