Þjóðskrá Íslands hefur afgreitt tvö mál til viðbótar sem tengjast lögheimilisflutningum í Árneshrepp. Í öðru málinu var skráning staðfest en í hinu var hún felld niður, líkt og gert var í ellefu öðrum málum fyrir helgi. Enn bíða fjögur mál vegna skráningar lögheimilis í hreppinn afgreiðslu stofnunarinnar. Frestur viðkomandi einstaklinga til að skila inn athugasemdum er ekki liðinn og verða þau því afgreidd síðar í vikunni.
Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands, segir í samtali við mbl.is að í þeim tilvikum þar sem skráning hefur verið felld niður flytjist lögheimili viðkomandi á þann stað þar sem hann var síðast með lögheimili.
Á tveggja vikna tímabili í lok apríl og byrjun maí fluttu átján manns lögheimili sitt í Árneshrepp, fámennasta sveitarfélag landsins. Við það urðu íbúar á kjörskrá hreppsins um 65. Kjörskrárstofn er miðaður við 5. maí og voru lögheimilisflutningarnir gerðir á tveggja vikna tímabili fyrir þann frest.
Ástríður sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að starfsmaður stofnunarinnar hefði orðið var við óvenju mikla flutninga í hreppinn og í kjölfarið hafi svokölluð frumkvæðisrannsókn hafist. Þjóðskrá leitaði m.a. til lögreglu við rannsókn sína.
Sveitarstjórnir þurfa að leggja fram og samþykkja kjörskrá tíu dögum fyrir kjördag. Það gerði hreppsnefnd Árneshrepps í síðustu viku en þó með fyrirvara. Í kvöld hefur svo verið boðaður fundur í hreppsnefndinni þar sem farið verður yfir kjörskrána á nýjan leik. Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna getur sveitarstjórn gert breytingar á kjörskrá fram á kjördag.
Hrafn Jökulsson er einn þeirra sem flutti lögheimili sitt í hreppinn nýverið og fékk í kjölfarið bréf frá Þjóðskrá þar sem hann var beðinn að staðfesta búsetu sína þar. Hann fékk svo annað bréf á föstudag þar sem lögheimilisskráning var felld niður.
Hrafn birti í dag ítarlega færslu áFacebook-síðu sinni, opið bréf til hreppsnefndar Árneshrepps, þar sem hann fer yfir tengsl sín við hreppinn sem eru til margra áratuga. Segir hann m.a. frá því að langþráður draumur hans hafi orðið að veruleika árið 2007 er hann flutti þangað ásamt þáverandi konu sinni. Hann hafi svo flutt frá hreppnum árið 2010 en ávallt hafi blundað í hjarta hans sá draumur að flytja aftur „heim í sveitina“, eins og hann orðar það og tekur fram að hann hafi frá þessum tíma margoft dvalið í sveitinni um lengri eða skemmri tíma.
„Þegar ég sá fram á að missa leiguíbúð mína í Reykjavík ákvað ég að láta drauminn rætast, og um páskana afhenti ég stoltum nýjum eigendum lyklana að Ránargötu 14, 101 Reykjavík, og hef ekki komið þangað síðan. Í kjölfarið fór ég norður til að skemmta mér með Jóhönnu Engilráð [dóttur sinni], heilsa uppá vini mína, og leggja drög að flutningum,“ skrifar Hrafn og heldur áfram:
„Síðan fór ég suður að stússa í ýmsu, skipuleggja neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen, næstu skákhátíð á Grænlandi og fleira skemmtilegt. Ég gaf mér hinsvegar tíma til að tilkynna Þjóðskrá um breytt lögheimili, einsog lög kveða á um.
Ég var sem sagt kominn heim, og hjarta mitt var barmafullt af gleði.
En þá dundu ósköpin yfir!
Á dauða mínum átti ég von, en ekki að ég yrði dreginn inn í einhverja óþverralegustu umræðu síðari ára. Ég ætla ekki að tíunda hér einstök ummæli, en mikið sem þau mæddu hjarta mitt og eitruðu mitt líf.
Nú hef ég fengið bréf frá Þjóðskrá þar sem því er haldið fram að allt sé þetta svindl og prettur, og ég skuli bara vesgú búa á Ránargötu 14 -- vegna þess að íbúi í Árneshreppi sem lögreglan ræddi við „vissi ekki til þess“ að ég væri fluttur!“
Hann segir íbúa á Ránargötunni hafa sent Þjóðskrá staðfestingu á því að þar sé ekki svo mikið sem „húsdraugur“ með hans kennitölu.
„Svo nú er ég í nokkrum bobba og leita til hreppsnefndar Árneshrepps um tafarlaust liðsinni, með því að senda Þjóðskrá Íslands staðfestingu á því að vissulega sé ég fullgildur íbúi í sveitinni.
Þetta verður að gerast umsvifalaust, því annars hlýt ég að líta svo á að ég hafi verið sviptur bæði heimili og kosningarétti,“ skrifar Hrafn.
Hér að neðan má lesa færslu Hrafns í heild: