„Útkrotaðar“ kjörskrár í Árneshreppi

Miðnætursól í Trékyllisvík í Árneshreppi í nótt.
Miðnætursól í Trékyllisvík í Árneshreppi í nótt. mbl.is/Sunna

Hver eru tengsl einstakra manna við Árneshrepp og hversu lengi og í hvaða tilgangi dvelja þeir í hreppnum á hverju ári? Rætt var um stóran hluta íbúa fámennasta sveitarfélags landsins á hreppsnefndarfundi í gær sem óhætt er að segja að hafi verið gjörólíkur öllum sambærilegum fundum stjórnvalda nú í aðdraganda kosninga.

Tekist var á um kjörskrá Árneshrepps á Ströndum í annað sinn á fundi hreppsnefndarinnar í gærkvöldi. Komu fram ólíkar skoðanir á því hvenær fólk flytti lögheimili sitt í hreppinn og hverjir gerðu það. Var m.a. fjallað um sjómann sem flytur lögheimili sitt þangað á hverju ári vegna vinnu en aftur til Reykjavíkur að hausti. Í ár hefði hann gert það að venju en flutt það strax til baka þar sem hann vildi ekki „trufla kosningarnar“ eins og oddvitinn orðaði það. Einn hreppsnefndarmaður lagði til að maður, sem Þjóðskrá hefur nú synjað um lögheimilisflutning, gerði aðra tilraun eftir sveitarstjórnarkosningar.  Þá var einnig rætt um að hátt í tuttugu manns sem hafa haft lögheimili á Ströndum í lengri tíma hafi þar ekki vetursetu frekar en margir þeirra sem nú vildu flytja en var meinað það af Þjóðskrá. Þar með sé jafnræðis ekki gætt.

Fimmtán út af kjörskrá

  Á fundi nefndinnar á þriðjudag  voru þrettán felldir út af kjörskránni. Í gær voru fjórir til viðbótar felldir út en einn tekinn inn að nýju: Hrafn Jökulsson sem fékk í gær bréf þess efnis að Þjóðskrá Íslands hefði fallist á lögheimilisflutning hans í hreppinn og snúið þannig við fyrri ákvörðun sinni. Að auki samþykktu fjórir af fimm hreppsnefndarmönnum að óska eftir því við Þjóðskrá að dóttir hjóna sem búa í hreppnum fái að flytja lögheimili sitt til þeirra líkt og hún hafði óskað eftir. Þjóðskrá hafði áður fellt þá skráningu úr gildi.

Hreppsskrifstofan er lítil og þar var þröng á þingi á …
Hreppsskrifstofan er lítil og þar var þröng á þingi á fundi sem hófst klukkan 20 í gærkvöldi. mbl.is/Sunna

Enn er því ekki komin niðurstaða að fullu í kjörskrána og fastlega má gera ráð fyrir því að hreppsnefndin verði að funda um hana í þriðja sinn. Lögum samkvæmt er hægt að gera leiðréttingar á kjörskrá allt fram á kjördag sem eins og kunnugt er á morgun er landsmenn ganga til sveitarstjórnakosninga.

Átján manns fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna tímabili í lok apríl og byrjun maí. Þjóðskrá Íslands tók þá flutninga til skoðunar, m.a. með aðstoð lögreglu. Hefur stofnunin nú úrskurðað í öllum málunum. Í tveimur tilvikum er niðurstaðan sú að skráning sé staðfest og einn sóttist sjálfur eftir því að skráning hans yrði leiðrétt og fært annað. Fimmtán lögheimilisflutningar voru felldir úr gildi en einhverjir hafa farið fram á endurupptöku og er nú unnið í þeim beiðnum hjá stofnuninni.

Þó að Þjóðskrá felli niður lögheimilisskráningar  er það hins vegar á valdi sveitarstjórna að samþykkja kjörskrá sem miðast lögum samkvæmt nú við íbúaskrá þann 5. maí. Því hefur hreppsnefnd Árneshrepps fundað í tvígang um kjörskrána. Eftir fundinn í gærkvöldi er niðurstaðan sú að fimmtán manns hafa verið felldir út af kjörskránni.

Samþykktu engar breytingar á kjörskrá

Hreppsskrifstofa Árneshrepps er til húsa í Kaupfélagshúsinu í Norðurfirði. Hún er smá í sniðum og á fundinum í gær sátu þar hreppsnefndarmennirnir fimm og sex áheyrendur. Það var því þröng á þingi er eina dagskrármál fundarins var rætt: Leiðréttingar á kjörskrá.

 Tveir nefndarmenn, Hrefna Þorvaldsdóttir og Ingólfur Benediktsson varaoddviti, samþykktu engar breytingar á kjörskránni, hvorki á fundinum í gær né þeim sem fram fór á þriðjudag. Fundurinn hófst á því að þau lögðu fram bókun þar sem kemur fram að þau geti ekki samþykkt slíkar breytingar þar sem þau efist um réttmæti þess að Þjóðskrá láti óátalið að a.m.k. sextán manns séu skráðir með lögheimili í hreppnum sem hafi þar ekki heilsársbúsetu. Á sama tíma séu ógiltir flutningar fólks sem flutti lögheimili sitt á tímabilinu 24. apríl til 5. maí. „Hvernig má það vera að sumir aðilar megi brjóta „lög“ um lögheimilisskráningar en aðrir ekki?“

Í bókuninni segir enn fremur að töluverður hópur fólks sem á fasteignir, hlunnindi og/eða hefur tekjur af starfsemi í sveitarfélaginu hluta úr ári, á þar lögheimili. „Meðal þeirra sem nú er vísað frá er fólk sem á hér fasteignir, hlunnindi og hefur tekjur af starfsemi hér hluta úr ári líkt og fyrrgreindur hópur. Ef þetta fólk hefði flutt lögheimili sitt fyrir 24. apríl 2018 hefði þeim þá verið vísað frá?“

Vildi fjalla um hverja skráningu fyrir sig

Þeir fjórir sem teknir voru út af kjörskrá í gær, með atkvæðum þriggja hreppsnefndarmanna, höfðu allir flutt lögheimili sitt að bænum Dröngum.

Ingólfur varaoddviti spurði á fundinum hvort ekki ætti að fjalla um hverja ákvörðun Þjóðskrár fyrir sig. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti hafnaði því; taka skyldi allar fjórar ákvarðanir Þjóðskrár um niðurfellingu lögheimilisflutninga, sem lágu fyrir fundinum, fyrir í einu. Í kjölfarið þyrfti svo að fara yfir kjörskrárnar aftur. Þær eru á pappírsformi og liggja frammi í Kaupfélaginu í Norðurfirði. Hafði Eva á orði að mögulega yrði að fá sendar nýjar kjörskrár, „þær eru að verða svo útkrotaðar“.

Í umræðu hreppsnefndar var m.a. tekist á um hvort að sveitarstjórn bæri skilyrðislaust að strika út nöfn þeirra af kjörskrá sem Þjóðskrá hefði tekið ákvörðun um að synja um flutning lögheimilis . Eva  oddviti og Guðlaugur Ágústsson vildu meina að svo væri á meðan Hrefna og Ingólfur bentu á að lögum samkvæmt væri það á valdi sveitarstjórna, ekki Þjóðskrár, að samþykkja kjörskrár. „Við erum ekki yfirmenn Þjóðskrár,“ sagði Guðlaugur meðal annars og Eva bætti við: „Þetta er eina stofnunin hér á Íslandi sem getur tekið svona ákvarðanir, það er bara þannig.“

Ekki var þó farið að einu og öllu að ákvörðunum Þjóðskrár hvað leiðréttingu á kjörskrá varðaði eins og síðar verður rakið.

Vill sýna stuðning með fimm manna hópi

Ingólfur bar upp tillögu þess efnis að hreppsnefnd myndi senda Þjóðskrá bréf og sýna þannig stuðning við brottflutta íbúa Árneshrepps sem nú hafa óskað eftir því að flytja lögheimili sín aftur í hreppinn en verið meinað það. Nefndi hann fimm manns í þessu sambandi: Óskar Kristinsson, Fríðu Ingimarsdóttur, Láru Ingólfsdóttur, Jón Óskarsson og Birki Jónsson sem öll vildu flytja lögheimili sitt að bænum Seljanesi.

 Sagðist Ingólfur vita til þess að þetta fólk væri enn að reyna að berjast fyrir því að fá lögheimilisskráningu sína viðurkennda.  Með bréfinu myndi sveitarfélagið sýna fólkinu stuðning.

„Þeir hafa nú ekki verið að styðja við bakið á okkur upp á síðkastið,“ sagði Eva þá. Upphófst í kjölfarið mikil umræða um fólkið, m.a. hver tengsl þess væru við sveitina og hversu oft og lengi það dveldi þar að jafnaði. Í umræðu um nafn einnar konu, eiginkonu manns sem er uppalinn í hreppnum og dvelur þar sumarlangt á hverju ári, spurði Guðlaugur: „Hún hefur aldrei búið hér?“ Hrefna minnti á að þau hjón dveldu bæði í sveitinni yfir sumartímann og við það kannaðist Guðlaugur. Var þá rætt um önnur hjón, sem lengi hafa haft lögheimili sitt í hreppnum, til samanburðar. Það sama ætti við hvað þau varðaði: Þau hefðu vetursetu annars staðar.

„Ekki að mælast til þess að þau skilji

Guðlaugur nefndi sérstaklega að á lista Ingólfs væru aðeins tveir sem í raun væru brottfluttir að sínu mati, þau Lára og Óskar. „Þetta eru náttúrlega bara hjón,“ sagði Ingólfur þá ákveðinn og bætti við á gamansömum nótum: „Ég er ekki að mælast til þess að þau skilji eða neitt svoleiðis.“

Ítrekaði hann að það ætti við um marga sem lögheimili eiga í sveitinni að þeir dveldu þar aðeins hluta úr ári. Nefndi hann að fyrra bragði dóttur sína sem hefði lengi haft lögheimili í foreldrahúsum en væri þar þó aðeins fáa daga á ári. Þannig væri nú bara staðan í Árneshreppi í mörgum tilvikum.

„Þetta fólk á það alveg skilið að sveitarfélagið styðji við bakið á því,“ sagði hann svo um fimmmenningana. „Sérstaklega vegna þess að þið viljið meina að þetta sé ákvörðun Þjóðskrár. Þá er það algjörlega ákvörðun sveitarfélagsins að styðja við bakið á þeim,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Evu og Guðlaugs. „Ég veit það að þetta fólk er að berjast fyrir því að fá að komast aftur inn [með sitt lögheimili].“

„Meint kosningasvindl“

Guðlaugur spurði þá hvað hefði rekið þetta fólk til þess að flytja lögheimili sitt í hreppinn á þessum tímapunkti. Ingólfur sagði augljóst að til væru þeir sem héldu að það snérist um kosningarnar. „Það er búið að búa það til.“

Sagði Guðlaugur málið snúast um „meint kosningasvindl“ en Ingólfur benti þá á að ekki væri enn búið að kjósa.

Hart er deilt um fyrirhugaða byggingu Hvalárvirkjunar í Árneshreppi, sérstaklega …
Hart er deilt um fyrirhugaða byggingu Hvalárvirkjunar í Árneshreppi, sérstaklega nú í aðdraganda kosningar því ný sveitarstjórn mun hafa það hlutverk að taka ákvarðanir um framhald málsins. mbl.is/Golli

Í frekari umræðu um tillögu Ingólfs um fimmmenninganna og tímasetningu lögheimilisflutninga þeirra spurði hreppsnefndarmaðurinn Bjarnheiður Fossdal af hverju Óskar Kristinsson væri ekki löngu búinn að flytja lögheimili sitt. „Hann flytur bara einhvern tímann í sumar, það er alveg hægt að flytja bara í júní eða júlí, ef það gengur ekki núna, Þjóðskrá bannar honum það núna,“ sagði þá Guðlaugur.  

Ingólfur lagði einnig til að hreppsnefnd mæltist til þess við Þjóðskrá að stúlka sem óskað hefur eftir því að flytja lögheimili sitt í foreldrahús í hreppnum fái að gera slíkt.

Niðurstaðan varð sú að þrír fulltrúar felldu þá tillögu að lýst yrði stuðningi við lögheimilisflutninga fimmmenninganna en hins vegar samþykktu fjórir að styðja flutning ungu konunnar til foreldrahúsa. Studdi Eva m.a. þá tillögu og sagði mál hennar og annarra sem Ingólfur nefndi ekki samanburðarhæf.

Guðlaugur sagðist hins vegar ætla að „samþykkja ákvörðun Þjóðskrár eins og hún kemur, sama hvað“ og  greiða atkvæði um kjörskrána út frá því. Hann felldi því báðar tillögur Ingólfs. „Þetta eru ekki leiðbeiningar, þarna stendur ákvörðun Þjóðskrár. [...] Ef það stendur þarna ákvörðun Þjóðskrár þá er engin ástæða til að klína þeirri ákvörðun yfir á hreppsnefnd.“

Hefna benti þá aftur á að valdið hvað kjörskrá varðaði lægi hjá hreppsnefnd, ekki Þjóðskrá.

Í dag er síðasti kennsludagurinn í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi. Þar …
Í dag er síðasti kennsludagurinn í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi. Þar er eitt barn nú við nám. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Einkennilegt“

Á fundinum var ekki aðeins rætt um þá sem vilja en fá ekki að flytja lögheimili sitt í Árneshrepp. Þannig var til dæmis sérstaklega rætt um sjómann sem sagður er flytja lögheimili sitt í hreppinn  á hverju vori er hann væri þar á strandveiðum. Það hefði hann einnig gert í ár og væri því á kjörskrá. Ingólfur benti á að ef litið væri svo á að þeir sem fluttu lögheimili sitt í apríl og maí hafi gert það til málamynda mætti allt eins segja það um fleiri.   

„Já, það er mjög einkennilegt að hann skuli vera hérna inni,“ sagði Eva um sjómanninn og vísaði í kjörskrána. Sagist hún hafa sent Þjóðskrá fyrirspurn vegna málsins því hún hefði upplýsingar um að hann hefði flutt lögheimili sitt „eiginlega strax aftur“ til Reykjavíkur. „Hann sagði mér það að hann hefði ákveðið að flytja sig bara suður aftur, hann ætlaði ekki að vera að trufla kosningarnar hérna. [...] Ég hugsa nú að hann komi eftir mánaðamótin og kannski flytji sig þá aftur inn í hreppinn. Ég veit ekkert um það.“

Ingólfur: „Og veri hann bara velkominn.“

Eva: „En ég veit ekki annað en að hann verði bara strikaður út [af kjörskrá í dag].“

Mbl.is fékk þær upplýsingar frá Þjóðskrá í morgun að óskað hefði verið eftir endurupptöku nokkurra málanna sem ákvarðanir höfðu verið teknar í og verið sé að vinna úr þeim beiðnum. „Það kann að vera að eitthvað breytist í dag en þetta er staðan eins og hún er núna,“ segir í skriflegu svari frá sviðsstjóra Þjóðskrár.

Kurlin eru því ekki öll komin til grafar hvað varðar kjörskrá Árneshrepps á Ströndum, fámennasta sveitarfélags landsins. Um 65 voru á kjörskrá þann 5. maí en nú hefur þeim fækkað um fimmtán.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka