Tvær athugasemdir vegna kjörskrár

Kjörfundur hófst klukkan 9.30 í félagsheimilinu Árnesi í morgun. Hann …
Kjörfundur hófst klukkan 9.30 í félagsheimilinu Árnesi í morgun. Hann stendur til 17.30. mbl.is/Sunna

Eftir vindasama nótt í Árneshreppi á Ströndum er kjörfundur hafinn í félagsheimilinu í Trékyllisvík. Veðrið hefur gengið niður en engin lognmolla er í kringum kosningarnar í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins. Á kjörskrá eru 46 og hefur því kjósendum fækkað nokkuð því á síðustu dögum var ákveðið með meirihluta atkvæða í hreppsnefnd að taka 15 út af kjörskrá. Allt var það fólk sem flutti lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna tímabili í lok apríl til byrjunar maí.  Þjóðskrá felldi lögheimilisskráningar þessa fólks úr gildi en samþykkti tvær sem einnig höfðu verið gerðar á þessu tímabili.

Það er Þjóðskrá sem ákvarðar um lögheimili fólks en sveitarstjórnir hafa hins vegar það hlutverk að fjalla um kjörskrár og gera leiðréttingar á þeim. Meirihluti var fyrir því í hreppsnefnd að leiðrétta kjörskrár í samræmi við ákvarðanir Þjóðskrár. Ekki er hægt að gera breytingar á kjörskrá nema með samþykkt sveitarstjórna.

En fleiri hafa flutt lögheimili sitt í Árneshrepp á síðustu mánuðum en átján manna hópurinn sem mest hefur verið fjallað um í fréttum síðustu vikur og nú hafa athugasemdir borist vegna þess fólks.

Í gær og í dag hafa tvær athugasemdir við kjörskrá verið sendar sveitarstjórn. Önnur varðar hjón sem felld voru út af skránni á fundi hreppsnefndar á þriðjudag í síðustu viku og hin er frá hópi íbúa í Árneshreppi og varðar þrjá einstaklinga sem fluttu lögheimili sitt í hreppinn í vetur en fyrir það tveggja vikna tímabil sem Þjóðskrá tók til skoðunar. Er þess krafist að þremenningarnir verði strikaðir út af kjörskrá í samræmi við afgreiðslu hreppsnefndar í öðrum málum á síðustu tveimur fundum hennar.

Strikaður út

Þá var á hreppsnefndarfundi í fyrradag m.a. rætt um lögheimilisflutning strandveiðimanns nú í vor sem samkvæmt upplýsingum sem oddviti Árneshrepps  gaf á fundinum flutti lögheimili sitt aftur til Reykjavíkur skömmu síðar en var enn á kjörskrá. Engar breytingar voru ákveðnar á skránni hvað hann varðar á þeim fundi og enginn fundur hefur verið haldinn í hreppsnefnd síðan. Kjörskráin var svo afhent kjörstjórn Árneshrepps í gær en á henni er búið að strika yfir nafn strandveiðimannsins.

Í 10. grein laga um kosningar til sveitarstjórna stendur að sveitarstjórn skuli þegar í stað taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. „Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag.“

Sveitarstjórn getur því gert breytingar á kjörskrá í dag. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti sagði í samtali við mbl.is í morgun að kjörskráin væri farin úr hennar höndum og eftir því sem hún best vissi væri hún tilbúin. Hún sagðist því ekki eiga von á því að til fundar yrði boðað í hreppsnefnd í dag.

Talið í félagsheimilinu í kvöld

Fyrsti kjósandinn mætti á kjörstað í félagsheimilinu klukkan 9.45 í morgun, fimmtán mínútum eftir að kjörfundur hófst. Sá næsti mætti um hálftíma síðar. Þannig er útlit fyrir að kosningadagurinn verði eins og tíðkast hefur. Flestir koma þó í kringum hádegi miðað við reynslu fyrri ára. Kjörstað verður svo lokað klukkan 17.30 í dag. Í kjölfarið hefst svo talning atkvæða til sveitarstjórnar í Árneshreppi á Ströndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka