Um þrjátíu manns sem leigðu geymslur í húsnæðinu sem brann í Miðhrauni í byrjun apríl hafa staðfest þátttöku sína í fyrirhugaðri hópmálsókn gegn fyrirtækinu Geymslum. Enn er að fjölga í hópnum. „Þetta er sem sagt komið af stað,“ segir Ágúst Valsson, einn forsvarsmanna hópsins, í samtali við mbl.is. Hann segir að fólkið eigi það sameiginlegt að hafa geymt hluti í húsnæði Geymslna og að hafa orðið fyrir tjóni, bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu í eldsvoðanum.
Spurður um kröfu hópsins segir Ágúst að í fyrsta lagi sé hún sú að ábyrgð Geymslna verði viðurkennd og í öðru lagi verði gerð krafa um skaðabætur.
Lögmaður hópsins er Guðni Á. Haraldsson hjá Löggarði og hvetur Ágúst þá sem hug hafa á að taka þátt í málsókninni til að setja sig í samband við hann. Eins er hægt að fylgjast með gangi mála og fá frekari upplýsingar á heimasíðu hópsins.
Leigutakar sem urðu fyrir tjóni í eldsvoðanum komu fyrst saman til fundar um miðjan maí til að ráða ráðum sínum.
Ágúst segir Guðna lögmann nú stefna á að halda sameiginlegan fund fyrir alla þá sem ætla að taka þátt í málsókninni hinn 6. júní klukkan 20.00.
Upptök eldsvoðans voru í rafmagnstenglum neðan við rafmagnstöflu á brunavegg í miðrými húsnæðis Icewear, samkvæmt bráðbirgðaniðurstöðu rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.