Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, neitar því að til staðar sé samkomulag um myndun meirihluta með Framsókn í Kópavogi á komandi kjörtímabili.
DV sagði frá því í morgun að heimildir væru fyrir því að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi náð samkomulagi um myndun meirihluta og að tilkynna ætti það um helgina. Ármann hefur nú neitað þeim fregnum í samtali við Viðskiptablaðið.
Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki til staðar samkomulag milli flokkanna tveggja og engar viðræður þess efnis standa yfir þrátt fyrir vilja meirihluta bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til þess að fara í slíkar viðræður.
Heimildir mbl.is segja að Ármanni hugnist betur að halda áfram samstarfi við Theodóru Þorsteinsdóttur í BF Viðreisn og að Theodóra sé á sömu skoðun.
Ekki náðist í bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, Birki Jón Jónsson, oddvita Framsóknar, eða Theodóru, oddvita BF Viðreisnar, við vinnslu fréttarinnar.