Óska eftir vitnum að árekstrinum

Karlmaður á fertugsaldri lést í árekstrinum.
Karlmaður á fertugsaldri lést í árekstrinum. mbl.is/Valli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að hörðum árekstri sem varð milli fólksbíls og sendibifreiðar á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, skammt frá Enni á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaður fólksbifreiðarinnar, karlmaður á fertugsaldri sem var erlendur ríkisborgari búsettur hér á landi, lést í slysinu, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.

Var hann á leiðinni út úr borginni er slysið átti sér stað, en sendibíllinn á leið til borgarinnar.

Vísir greindi frá því í morgun að einn fullorðinn og átta börn hafi verið í sendibifreiðinni og voru þau öll flutt á slysadeild. Segir fréttastofa RÚV konu og átta börn hafa verið í bílnum. Fjórir þeirra voru alvarlega slasaðir og samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Landspítalanum í morgun eru þeir nú á gjörgæsludeild spítalans, en hinir fimm liggja á almennri deild. Samkvæmt heimildum mbl.is eru allir hinna slösuðu Íslendingar.

Rannsókn lögreglu og Rannóknarnefndar samgönguslysa á tildrögum slyssins stendur nú yfir og óskar lögregla eftir vitnum að árekstrinum.

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, stöðvarstjóra hjá lögreglunni í Grafarholti, ræddi lögregla við nokkurn hóp vitna á slysstað í gær. „Það voru allnokkrir sem við gátum rætt við“ segir hann og svarar því játandi að fólk hafi verið hjálplegt.

Lögregla biður þó þá sem kunna að hafa orðið vitni að árekstrinum eða aðdraganda hans, og sem ekki hafa þegar verið í sambandi við lögreglu, um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000 eða senda upplýsingar til lögreglu með tölvupósti á netfangið stella.mjoll@lrh.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert