Þrír einstaklingar, sem lentu í alvarlegu umferðarslysi á Vesturlandsvegi í gærkvöld, dvelja enn á Landspítalanum, einn á almennri legudeild og tveir á gjörgæsludeild. Sex hafa verið útskrifaðir en samtals voru níu einstaklingar fluttir á spítalann í kjölfar slyssins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landspítalanum. Einn lést í slysinu, karlmaður á fertugsaldri. Tvær bifreiðar, sem voru að koma úr gagnstæðri átt, lentu saman, sendiferðabifreið og fólksbifreið. Ökumaður þeirrar síðarnefndu lést en hann var erlendur ríkisborgari. Lögreglan hefur óskað eftir vitnum að slysinu.
Lögregla biður þó þá sem kunna að hafa orðið vitni að árekstrinum eða aðdraganda hans, og sem ekki hafa þegar haft samband, um að hafa samband í síma 444 1000 eða senda upplýsingar með tölvupósti á netfangið stella.mjoll@lrh.is.