Kosningakærum í Árneshreppi hafnað

Tveimur kærum sem bárust vegna kosninganna í Árneshreppi hefur verið …
Tveimur kærum sem bárust vegna kosninganna í Árneshreppi hefur verið hafnað. mbl.is/Golli

Tveimur kærum sem bárust vegna sveitarstjórnarkosninga í Árneshreppi hefur verið hafnað. Kærurnar bárust sýslumanninum á Vestfjörðum eftir kosningar og hann skipaði þriggja manna kjörnefnd, sem hefur nú hafnað kröfum kærenda um ógildingu sveitarstjórnarkosninganna í hreppnum.

Fyrri kæran kom frá Sighvati Lárussyni. Hann er einn þeirra fimmtán einstaklinga sem voru gerðir afturreka með lögheimilisflutning sinn í Árneshrepp eftir skoðun Þjóðskrár Íslands í aðdraganda kosninga og strikaðir út af kjörskrá hreppsins í kjölfarið.

Hann taldi að sú ákvörðun hefði falið í sér grófa mismunun, þar sem fleiri séu með skráð lögheimili í sveitarfélaginu þrátt fyrir að hafa ekki þar fasta búsetu. Í kæru Sighvats kom raunar m.a. fram að hann teldi að einungis 24 einstaklingar sem hafa lögheimili í Árneshreppi hafi þar fasta búsetu, auk tveggja annarra manna.

Þannig hafi 19 einstaklingar á kjörskrá Árneshrepps verið skráðir með lögheimili þar án þess að hafa þar fasta búsetu og taldi kærandi þetta hafa haft „mikil áhrif“ á úrslit sveitarstjórnarkosninganna.

Kjörnefnd sýslumanns hafði ákvarðanir Þjóðskrár Íslands ekki til endurskoðunar, en benti kæranda á að slíkar ákvarðanir væru kæranlegar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá segir kjörnefnd í úrskurði sínum að sveitarstjórn Árneshrepps hafi verið skylt að taka þá einstaklinga inn á kjörskrá sem voru með lögheimili skráð í sveitarfélaginu.

Drógu gildi kjörskrár í efa

Hin kæran sem kjörnefnd sýslumannsins á Vestfjörðum hefur hafnað er frá þeim Elíasi Svavari Kristinssyni og Ólafi Valssyni og var sá úrskurður birtur kærendum í morgun. Úrskurður kjörnefndar er alls þrettán blaðsíður, en í kæru tvímenningana voru gerðar athugasemdir við fjölmörg atriði varðandi framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna, en aðallega laut kæran þó að gildi kjörskrár í hreppnum, eins og mbl.is greindi frá þegar kæran kom fram.

Í málástæðum kærenda er fundið að ýmsu við kosningaframkvæmdina, m.a. málsmeðferð hreppsnefndar og vinnubrögðum Þjóðskrár Íslands í aðdraganda kosninga auk þess sem kærendur töldu margt athugavert við framlagningu kjörskrár.

Þeir benda m.a. á að kjörskrá hafi ekki legið frammi alla virka daga eftir að hún var lögð fram og að ekki hafi verið auglýst hvar kjörskráin hafi legið frammi, heldur hafi oddviti hreppsins einungis minnst á það í blaðaviðtali, sem geti tæplega talist fullnægjandi auglýsing.

Kærendur telja til fjölmörg atriði sem þeir segja líklegt að hafi haft áhrif á úrslit kosninganna í Árneshreppi, en kjörnefnd sýslumanns segir að ekki verði talið að athugasemdir kærenda varðandi tilurð endanlegrar kjörskrár eigi að valda því að kosningarnar í sveitarfélaginu séu ógildar. Kröfu kærenda er því sem áður segir hafnað.

Kostnaður vegna starfa kjörnefndarinnar sem sýslumaður skipaði vegna kæranna greiðist af sveitarfélaginu Árneshreppi, samkvæmt 100. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert