Brúðkaupsferð í Moskvu og svo til Króatíu

Elvar og Kathryn í brúðkaupsferð sinni í Moskvu.
Elvar og Kathryn í brúðkaupsferð sinni í Moskvu. mbl.is/Baldur Arnarson

„Við giftum okkur 9. júní í fyrra og héldum aðra veislu á Íslandi mánuði seinna svo það var mikið að gera um sumarið. Við ákváðum að fara í brúðkaupsferðina ári seinna og síðan kemur þessi tímasetning svo núna erum við í Moskvu,“ segir Elvar Snorrason sem staddur er í brúðkaupsferð með eiginkonu sinni, Kathryn Snorrason, og ætla þau á leik Íslands og Argentínu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á morgun.

Elvar segir stemninguna góða í Moskvu og að þau rekist á Íslendinga á um hálfrar klukkustundar fresti. Þau hjónin eru spennt fyrir leiknum á morgun og ekki síður fyrir stuðningsmannahátíð sendiráðs Íslands í Moskvu fyrir leikinn. Elvar er bjartsýnn og heldur að leikurinn fari 1-1.

Eiginkona Elvars er bandarísk og heldur að sjálfsögðu með Íslandi á HM, enda komust Bandaríkjamenn ekki í lokakeppnina í ár. „Hún hefði jafnvel haldið með Íslandi hvort sem er held ég, en það hefði sennilega verið meira skipt,“ segir Elvar.

Elvar og Kathryn ætla ekki á fleiri leiki á HM að sinni en brúðkaupsferðinni er þó ekki lokið, því þau ætla að heimsækja Sankti Pétursborg og fara síðan yfir til Króatíu, þar sem þau verða einmitt stödd þegar leikur Íslands gegn Króatíu fer fram þann 26. júní. „Þar þurfum við að spila ákveðinn varnarsigur fyrir Ísland, einu stuðningsmenn Íslands sennilega í Króatíu,“ segir Elvar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert