Höskuldur Daði Magnússon
„Þetta sýnir bara betur en margt annað hvers lags stemning er að myndast fyrir þessum atburði. Það þarf mikið til að fyrirtæki í fullum rekstri loki. Menn gera sér grein fyrir því að það verður enginn bisness á meðan leiknum stendur.“
Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Þónokkuð virðist vera um það að fyrirtæki og verslanir loki meðan leikur Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi fer fram í dag. Leikurinn hefst klukkan 13 og stendur í um tvo klukkutíma, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Toyota reið á vaðið með heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í gær þar sem tilkynnt var að lokað yrði hjá öllum söluaðilum bílaumboðsins. Síðan hafa fleiri fyrirtæki bæst í hópinn. Verslunin Epal verður aðeins opin til klukkan 13 í dag en opnar á móti fyrr, eða klukkan 10. Þá verður franska sælkeraverslunin Hyalin á Hverfisgötu lokuð á meðan leikjum Íslands stendur. Brikk – brauð & eldhús í Hafnarfirði verður aðeins opið til klukkan 12.30 í dag af þessu tilefni og Adrenalíngarðurinn á Nesjavöllum verður lokaður meðan á leiknum stendur.