„Eitthvað stórfenglegt að fara að gerast“

Rögnvaldur Þorgrímsson ásamt fjölskyldunni. Þau keyptu sér miða aðra leið …
Rögnvaldur Þorgrímsson ásamt fjölskyldunni. Þau keyptu sér miða aðra leið og ætla að fylgja liðinu alla leið. Rögnvaldur er næstlengst til hægri á myndinni. Ljósmynd/Rögnvaldur Þorgrímsson

„Það er eitthvað í loftinu. Það er einhver tilfinning frá því maður vaknaði í morgun. Það er eitthvað stórfenglegt að fara að gerast, ég finn það á mér. Þetta er eitthvað annað,“ segir sjónvarpsmaðurinn Rögnvaldur Þorgrímsson, Röggi, í samtali við mbl.is en hann er staddur í Moskvu ásamt fjölskyldunni.

mbl.is/Eggert

Íslendingar komu saman í Zaryadye-garðinum í Moskvu í morgun þar sem bræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór hituðu upp mannskapinn með Tólfunni. „Við erum á torginu og sjáum dómkirkjuna héðan. Þetta er dásamleg stund, hérna eru allir að syngja og fjölmiðlar hvaðanæva úr heiminum að taka myndir. Þetta er geðveikt,“ segir Röggi.

Segir hann að allir séu bláklæddir, og ekki bara Íslendingar heldur hafi hann rekist á fullt af fólki frá hinum og þessum löndum heimsins sem er mætt í dag til að styðja Ísland þegar við mætum Argentínu í fyrsta leik beggja liða á heimsmeistaramótinu í dag klukkan 13. Ísland verður þar með smæsta þjóð frá upphafi til að taka þátt í heimsmeistaramótinu.

mbl.is/Eggert

„Ég er búinn að sjá Argentínumennina og auðvitað eru læti í þeim. En þeir eru smeykir á einhvern hátt. Þeir sjá fjölskyldustemninguna hjá okkur. Við erum ein stór fjölskylda og syngjum ættjarðarlögin. Maður fyllist af einhverju pínu þjóðernisstolti sem maður þarf ekkert að skammast sín fyrir á svona stórum viðburði eins og HM,“ segir Röggi.

Að sögn Rögga er veðrið dásamlegt. „Um það bil 22 stiga hiti og smá gola. Við erum ekki að fara að bráðna í dag. Við ætlum að frysta Argentínu,“ segir Röggi. „Ég held að Argentína sé sénsinn okkar, en ætla að vera hófsamur og spá þessu 1-1. Jón Daði Böðvarsson skorar okkar mark.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka