Ekki of seint að ákveða að fara á HM

Stemningin í Mosvku á laugardaginn var góð á meðal Íslendinga. …
Stemningin í Mosvku á laugardaginn var góð á meðal Íslendinga. KSÍ vill að sem flestir ferðist á síðari tvo leiki riðlakeppninnar. mbl.is/Eggert

Knattspyrnusamband Íslands vill fá sem flesta íslenska stuðningsmenn út til Rússlands og mun hjálpa þeim sem setja sig í samband við að verða sér úti um svokallað Fan-ID, sem stuðningsmenn þurfa að hafa til þess að komast til Rússlands án vegabréfsáritunar. Tíminn er knappur en þetta er hægt, segir Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ í samtali við mbl.is.

Eftir frækið jafntefli Íslands og Argentínu í Moskvu á laugardag hafa eflaust margir stuðningsmenn landsliðsins sem ekki höfðu þegar skipulagt ferð til Rússlands fengið sterka löngun til að skella sér af stað, en enn er mögulegt að kaupa miða á leikina gegn Nígeru og Króatíu, sem fram fara 22. og 26. júní.

„Við myndum aðstoða við það. Það þyrfti í rauninni bara að senda okkur fyrirspurn á midasala@ksi.is,“ segir Klara. Hún segir KSÍ ekki geta sótt um Fan-ID, en það er gert á sérstakri vefsíðu. Til þess þarf kóða, sem fylgir keyptum miðum, og þeim kóðum getur KSÍ útdeilt.

Miðar á leikina eru til, bæði hjá KSÍ og á vef FIFA, auk þess sem miðar á leikina í Volgograd og Rostov ganga kaupum og sölum á milli íslenskra stuðningsmanna á Facebook.

Það flóknasta í þessu öllu saman er því sennilega það að verða sér úti um flug til borganna, eða til annarra borga í Rússlandi og koma sér keyrandi eða með almenningssamgöngum þaðan. En ef að fólk finnur sér flug, þá hjálpar KSÍ við afganginn.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir sambandið geta hjálpað fólki að …
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir sambandið geta hjálpað fólki að útvega Fan-ID. mbl.is/Golli

„Við viljum allt til þess gera að reyna að fjölga Íslendingum á leiknum og erum með starfsmenn í þessu sem eru tilbúin að hjálpa til eins og við getum, að liðka fyrir þessu ferli,“ segir Klara, sem segist aðspurð ekki vita nákvæmlega hversu margir Íslendingar verði á seinni tveimur leikjum riðlakeppninnar.

Einhverjir illa sviknir í Moskvu

Nokkrir stuðningsmenn Íslands voru illa sviknir við miðakaup í Moskvu. Klara segir að henni hafi þótt leiðinlegt að heyra af slíku, en þau dæmi hafi sem betur fer ekki verið mörg.

„Ekki eins og í Frakklandi, fólk virðist almennt hafa passað sig, en það voru einhver dæmi um að fólk væri að kaupa af einhverjum heimasíðum sem virtust ekki standa undir væntingum. Það var varað við þessu, en fólk reyndi hvað það gat að koma sér á leikinn. Það er bara eins og það er,“ segir Klara.

Töluvert hefur verið rætt um það hvernig á því stóð að Argentínumenn voru margfalt fleiri en Íslendingar í stúkunni á Spartak-vellinum í Moskvu á laugardag. Klara hefur sent FIFA fyrirspurn vegna þessa, en á ekkert endilega von á því að fá svör.

Strákarnir héldu Messi niðri og halda næst til Volgograd og …
Strákarnir héldu Messi niðri og halda næst til Volgograd og mæta þar Nígeríu á föstudag. mbl.is/Eggert

„Ég sendi töluvpóst á FIFA í gær en ég ekki bjartsýn á að fá einhver svör við því, enda svo sem getur vel verið að þetta hafi allt sínar eðlilegu skýringar. Það fóru milljón miðar í sölu áður en þetta opinbera tímabil hófst, þessi sala til stuðningsmanna, þessi 8%. Hugsanlega hafa Argentínumenn verið grimmari í innkaupum en okkar stuðningsmenn og síðan var náttúrlega þessi skiptimarkaður með miða og þetta er ansi mikill slagkraftur þegar svona stór þjóð fer af stað,“ segir Klara.

Infantino hafi „ekki grænan grun“ um miðamálin

Hún og Guðni Bergsson formaður KSÍ sátu hjá æðstu yfirmönnum Alþjóða knattspyrnusambandsins á leiknum á laugardag og einhverjir þóttust sjá það í sjónvarpsútsendingu leiksins að formaður KSÍ væri að benda forseta FIFA, Gianni Infantino, á að Argentínumenn í stúkunni væru umtalsvert fleiri. Klara efast um að svo hafi verið.

„Ég get ekki ímyndað mér það, enda held ég að forseti FIFA hafi ekki grænan grun um miðamál. Guðni sat bara við hliðina á forseta FIFA og ég sat við hlið framkvæmdastjóra FIFA og þau hvorugt þeirra eru að setja sig inn í miðasölumál keppninnar. Það er her manna sem sér um þessi miðamál og þau vinna frá Bretlandi. Þannig að ég held að FIFA skipti sér ekki mikið af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert