„Súrrealískt“ að sjá litla bróður skora

Hildigunnur Finnbogadóttir með Viktoríu Alfreðsdóttur frænku sína í fanginu fyrir …
Hildigunnur Finnbogadóttir með Viktoríu Alfreðsdóttur frænku sína í fanginu fyrir leikinn á laugardag. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var fáránleg tilfinning, mjög súrrealískt,“ segir Hildigunnur Finnbogadóttir, systir landsliðsframherjans Alfreð Finnbogasonar, um þá tilfinningu sem hún upplifði á Spartak-vellinum í Moskvu á laugardag er litli bróðir hennar lagði boltann snyrtilega í mark andstæðinganna og skráði sig á spjöld sögunnar, sem fyrsti markaskorari Íslands á HM.

Hún segir í samtali við mbl.is að hún og þau sem voru með henni á vellinum hafi í fyrstu ekki áttað sig á því hver hvítklæddu hetjanna setti knöttinn í net Argentínumanna, þar sem þau voru alveg á hinum enda vallarins.

„En síðan eftir nokkrar sekúndur þá litu allir á okkur og öskruðu og þá vissum við að hann hefði sett markið,“ segir Hildigunnur, sem er komin aftur til Kaupmannahafnar þar sem hún er búsett. Hún naut sín vel í Moskvu ásamt kærasta sínum, Leifi Bjarka Erlendssyni, og föður sínum, Finnboga Alfreðssyni.

Alfreð Finnbogason fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Argentínu.
Alfreð Finnbogason fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Argentínu. mbl.is/Eggert

„Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að geta mætt þarna nokkrum dögum fyrr og fengið HM-fílínginn beint í æð. Suður-Ameríkumennirnir voru þarna bara syngjandi og trallandi allan daginn og allar nætur, í miðbænum og í kringum Rauða torgið,“ segir Hildigunnur, sem segist fyrst hafa áttað sig almennilega á því hversu spennt hún væri skömmu áður en leikurinn hófst.

„Maður fattaði það ekkert fyrr en maður var kominn á leikvanginn. Þá fór maður í smá spennufall. Og þegar maður sá alla Argentínumennina, sem voru 75-80% af stúkunni. Þegar þeir byrjuðu að syngja varð maður smá hræddur, en við vorum ekki lengi að þagga niður í þeim.“

„Það trylltust allir“

Sparkspekingar spáðu því margir hverjir að Alfreð myndi byrja á bekknum og Hildigunnur segir að hún og hennar fólk hafi allt eins búist við því að Jón Daði Böðvarsson myndi leiða framlínu liðsins.

„Við vorum kannski að búast við því og ekkert ofsalega ánægð með það, við vildum bara sjá okkar mann inn á, en svo þegar byrjunarliðið kom þá andaði maður léttar,“ segir Hildigunnur. Gleðin yfir því að Alfreð væri í byrjunarliði Íslands vék svo fyrir hreinum tryllingi, er hann skoraði markið sitt þegar um stundarfjórðungur var liðinn af viðureigninni.

„Við náttúrulega bara trylltumst, það trylltust allir,“ segir Hildigunnur og bætir því að eftir að jöfnunarmarkið náðist hafi leikurinn verið afar taugatrekkjandi.

Hildigunnur og Leifur Bjarki Erlendsson kærasti hennar voru alsæl með …
Hildigunnur og Leifur Bjarki Erlendsson kærasti hennar voru alsæl með ferðina til Moskvu. Ljósmynd/Aðsend

„Síðasta korterið var ég bara byrjuð að titra og það héldu allir fyrir andlitið af stressi um að þeir myndu setja mörk þarna undir lokin. En svo gerðist það ekki og það var ótrúlegt, okkur leið bara eins og við hefðum unnið heimsmeistaramótið.“

Tekur hina leikina í Köben

Sem áður segir er Hildigunnur komin aftur til Kaupmannahafnar eftir vel lukkaða ferð til Moskvu. Alfreð verður þó áfram dyggilega studdur í Rússlandi, en móðir þeirra ætlar að fara á seinni tvo leikina í riðlakeppninni.

„Ætli hann skori ekki bara í næstu tveimur líka?“ segir Hildigunnur og hlær, en hún sjálf stefnir á að horfa á næstu leiki við íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn, þar sem fjöldi Íslendinga safnaðist saman á laugardag.

„Pabbi er einmitt að koma núna á fimmtudaginn svo ætli við drögum hann ekki bara þangað á föstudaginn. Þetta verður bara geggjað.“

Finnbogi Alfreðsson, faðir Alfreðs, Leifur Bjarki, kærasti Hildigunnar, Hildigunnur, Ásgeir …
Finnbogi Alfreðsson, faðir Alfreðs, Leifur Bjarki, kærasti Hildigunnar, Hildigunnur, Ásgeir Gíslason og Finnbogi Jónsson fyrir leik. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka