Margir Íslendingar lögðu leið sína til Moskvu um síðustu helgi. Meðal þeirra er íslensk fjölskylda sem lenti í óskemmtilegri reynslu og var svikin um miða á leik Íslands gegn Argentínu í Moskvu. Hallfríður Brynjólfsdóttir og fjölskylda hennar keyptu miða á leikinn en þau komust aldrei lengra en að leikvanginum.
Hallfríður segist hafa keypt miðana af vefsíðunni Ticombo. „Þetta var mjög traustvekjandi til að byrja með, skilaboðum svarað strax, lofað endurgreiðslu ef eitthvað færi úrskeiðis. Svo áttu miðarnir að berast heim til okkar fyrir 29. maí og þá komu engir miðar.“ Þá fékk Hallfríður strax póst og var þar fullyrt að miðarnir væru í Moskvu, hjá afhendingarstöð Fifa. „Svo fór ég að senda póst 5-6 dögum fyrir brottför – bara til að gá í hvaða sæti við værum og svona. Þá svarar Ticombo mér alltaf að það sé mikið að gera, þeir biðja um heimilisfang í Moskvu og segjast ætla að senda miðana á hótelið, þannig að það var ekki verið að svara spurningunum mínum.“
Þá var Hallfríður farin að efast um ferlið. „Svo voru miðarnir ekki á hótelinu þegar við komum daginn fyrir leik, þannig að ég hringdi eins og brjálæðingur, í tugatali.“ Segir Hallfríður ekki eitt einasta svar hafa borist seinustu tvo dagana fyrir leikinn.
„Á laugardeginum fer ég með krakkana með mér og ætla bara að gera gott úr þessu. Fer og finn stað þar sem við verðum og ég verð bara að sætta mig við það að við förum ekki á leikinn.
Svo hringir maður í mig tveimur og hálfum tíma fyrir leik og segist vera með miðana mína, fyrir utan leikvanginn. Þannig að við mætum þangað tveim tímum fyrir leik og enginn hringir. Ég reyni að hringja í þetta númer, sem ég hef ekki séð áður, fjölmörgum sinnum en ekkert svar. Hann hringir svo þegar 4 mínútur eru liðnar af leiknum. Ég segi honum hvar erum, við bíðum í hálftíma en hann kom aldrei. Svo gáfumst við upp og enduðum á því að horfa á seinni hálfleikinn á bar með eldhressum Argentínumönnum og það var bara gaman.“
Hallfríður segir fyrrgreinda vefsíðu vera nú í sambandi við sig og lofa öllu fögru. „Lofa einhverri Spánarferð og eitthvað. Við sjáum hvernig það endar.“ Fjölskyldan samanstendur af miklum fótboltaaðdáendum og fóru þau t.a.m. til Frakklands á EM og á EM í Hollandi í fyrra. „Börnin eru búin að bíða eftir þessu í hálft ár, að sjá Messi. Þetta eru rosaleg vonbrigði, tilfinningalega er þetta bara mjög erfitt.“ Hallfríður veit um a.m.k. eina íslenska fjölskyldu sem lenti í sömu ógöngum og líklegt er að þær séu fleiri. KSÍ ítrekar að almenningur hafi aðgát og kaupi ekki miða í gegnum aðra en FIFA eða KSÍ.