Íslensku treyjurnar rjúka út

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Guðni Th. Jóhanesson, forseti Íslands, og …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Guðni Th. Jóhanesson, forseti Íslands, og Þorvaldur Ólafsson hjá Errea á Íslandi með íslensku treyjuna. mbl.is

Treyja íslenska landsliðsins fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi rýkur út eins og heitar lummur hjá öllum helstu söluaðilum.

Bæði Ellingsen og Útilíf fá nú tvær nýjar sendingar vikulega til að svara eftirspurn og sendingarnar fara virkilega hratt út. „Það tekur því varla að taka þetta úr plastinu og hengja á slá. Fólk kaupir þetta bara beint upp úr kassanum án þess að máta,“ sagði starfsmaður Útilíf í Smáralindinni í dag.

Valdimar Magnússon, eigandi Jóa útherja knattspyrnuverslunar, segir að eftirspurnin sé að minnsta kosti tvisvar sinnum meiri en gert var ráð fyrir. „Ég hef aldrei upplifað annað eins, ekki á nokkurri vöru.“ Valdimar bætir við að sala á landsliðstreyjum annarra landa hafi einnig komið á óvart. Sala á markmannstreyju íslenska liðsins sótti einnig gríðarlega í sig veðrið í vikunni og er uppseld sem stendur. „Það er náttúrulega pantað minna af henni. Hún er á leiðinni til okkar aftur núna.“

Aðdáendur íslenska liðsins sem eiga enn eftir að verða sér úti um treyjur þurfa þó ekki að örvænta. „Það selst mikið en það er þó nóg til,“ segir starfsmaður Errea. Valdimar slær í sama streng. „Þetta klárast og kemur svo aftur. Við stöndum frekar vel því þetta kemur fljótt til landsins.“

Annar leikur íslenska liðsins í D-riðli gegn liði Nígeríu hefst klukkan 15:00 á íslenskum tíma á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert