Skyldur flestum í íslenska landsliðinu

Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust.
Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust. mbl.is/Golli

Stjórnmálamaður í Manitoba-fylki í Kanada sem er af íslensku bergi brotinn segir aðra ástæðu en íslenskar rætur sínar fyrir því að hann styðji íslenska landsliðið á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Ástæðan sé einfaldlega sú að hann er skyldur 22 af 23 leikmönnum liðsins.

Len Isleifsson er fæddur og uppalinn í Kanada en afi hans fluttist þangað frá íslandi fyrir meira en árhundraði síðan. Len segir að faðir sinn, sem er 85 ára gamall, hafi alltaf haft mikinn áhuga á íslenskum uppruna sínum og ákvað að kynna sér hann betur eftir að íslenska liðið fékk þátttökurétt á mótinu og rekja rætur sínar á Íslandi aftur í tímann. Len segist hafa gert sér í hugarlund að hann væri ef til vill skyldur einhverjum í liðinu en að það hafi komið skemmtilega á óvart að komast að því að meira og minna allt liðið væri skylt sér.

Len komst að því að íslensku leikmennirnir eru skyldir honum frá þriðja ættlið upp í þann áttunda. Hann sagði í samtali við kanadíska miðilinn Sportsnet að hann fari ekki leynt með skyldleika sinn við liðið, enda sé hann afar stoltur af honum. Fyrr í sumar heimsótti hann íslenskur embættismaður í Winnipeg og haf honum íslensku landsliðstreyjuna. Hann segir treyjuna góða viðbót í safnið en að hann hafi þá þegar haft innrammaða treyju á skrifstofuveggnum.  

Len viðurkennir að hann hafi ekki alla tíð verið fótboltaaðdáandi en að hann hafi verið dyggur stuðningsmaður íslenska liðsins á mótinu í Rússlandi. „Þeir eru sjómenn. Þjálfarinn er tannlæknir. Það eru bændur í liðinu. Það er einn maður sem á bensínstöð. Þetta eru venjulegir menn að spila íþrótt sem þeir elska og þeir eru að standa sig frábærlega. Mér finnst það ótrúlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert