Skyldur flestum í íslenska landsliðinu

Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust.
Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust. mbl.is/Golli

Stjórn­mála­maður í Manitoba-fylki í Kan­ada sem er af ís­lensku bergi brot­inn seg­ir aðra ástæðu en ís­lensk­ar ræt­ur sín­ar fyr­ir því að hann styðji ís­lenska landsliðið á Heims­meist­ara­mót­inu í Rússlandi. Ástæðan sé ein­fald­lega sú að hann er skyld­ur 22 af 23 leik­mönn­um liðsins.

Len Is­leifs­son er fædd­ur og upp­al­inn í Kan­ada en afi hans flutt­ist þangað frá ís­landi fyr­ir meira en ár­hundraði síðan. Len seg­ir að faðir sinn, sem er 85 ára gam­all, hafi alltaf haft mik­inn áhuga á ís­lensk­um upp­runa sín­um og ákvað að kynna sér hann bet­ur eft­ir að ís­lenska liðið fékk þátt­töku­rétt á mót­inu og rekja ræt­ur sín­ar á Íslandi aft­ur í tím­ann. Len seg­ist hafa gert sér í hug­ar­lund að hann væri ef til vill skyld­ur ein­hverj­um í liðinu en að það hafi komið skemmti­lega á óvart að kom­ast að því að meira og minna allt liðið væri skylt sér.

Len komst að því að ís­lensku leik­menn­irn­ir eru skyld­ir hon­um frá þriðja ættlið upp í þann átt­unda. Hann sagði í sam­tali við kanadíska miðil­inn Sportsnet að hann fari ekki leynt með skyld­leika sinn við liðið, enda sé hann afar stolt­ur af hon­um. Fyrr í sum­ar heim­sótti hann ís­lensk­ur emb­ætt­ismaður í Winnipeg og haf hon­um ís­lensku landsliðstreyj­una. Hann seg­ir treyj­una góða viðbót í safnið en að hann hafi þá þegar haft inn­rammaða treyju á skrif­stofu­veggn­um.  

Len viður­kenn­ir að hann hafi ekki alla tíð verið fót­boltaaðdá­andi en að hann hafi verið dygg­ur stuðnings­maður ís­lenska liðsins á mót­inu í Rússlandi. „Þeir eru sjó­menn. Þjálf­ar­inn er tann­lækn­ir. Það eru bænd­ur í liðinu. Það er einn maður sem á bens­ín­stöð. Þetta eru venju­leg­ir menn að spila íþrótt sem þeir elska og þeir eru að standa sig frá­bær­lega. Mér finnst það ótrú­legt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert