„Landspítali mun ráðfæra sig við Háskóla Íslands að nýju um [plastbarka]málið þegar skólinn hefur metið þessa nýju skýrslu Karolinska Institutet.,“ segir forstjóri Landspítala, Páll Matthíasson, í pistli á vef landspítalans í dag.
Tilefni skrifa Páls er úrskurður rektors Karólínsku stofnunarinnar í plastbarkamálinu. Í úrskurðinum eru tveir íslenskir læknar nafngreindir, en Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir, er sagður sekur um vísindalegt misferli.
Páll vísar í pistlinum til yfirlýsingu Háskóla Íslands frá 5. apríl síðastliðnum um að fallist hefur verið á niðurstöðu nefndarinnar um að vinnubrögð er tengjast birtingu vísindagreinar hafi verið aðfinnsluverð, en að ekki hafi verið talið að lagaskilyrði væru fyrir hendi til að beita viðurlögum vegna brota í starfi.
Tómas er prófessor við Háskóla Íslands og jafnframt starfsmaður Landspítala. Forstjórinn segist nú ætla að skoða málið að nýju í samstarfi við Háskóla Íslands.