Úrskurður Karolinsku stofnunarinnar (Karolinska Institutet – KI) vegna plastbarkamálsins svonefnda hefur vakið viðbrögð í Svíþjóð. Úrskurðurinn var birtur 25. júní sl. og hefur verið greint frá honum í Morgunblaðinu og á mbl.is.
Gagnrýnendur segja m.a. að KI reyni að bjarga eigin skinni í úrskurðinum, hann veki margar spurningar og að viðbrögð KI gagnvart uppljóstrurum málsins kunni að kippa fótunum undan frekari uppljóstrunum í framtíðinni.
Karolinska stofnunin reynir að bjarga eigin skinni í plastbarkamálinu með úrskurði sínum, að mati Karls-Henriks Grinnemos, skurðlæknis og aðstoðarprófessors við KI. Hann er í hópi sex vísindamanna, þar á meðal íslensks læknis, sem KI sakaði um misferli í rannsóknum vegna plastbarkamálsins, auk ítalska skurðlæknisins Paolos Macchiarinis.
Grinemo er einnig einn fjögurra uppljóstrara sem ásökuðu Macchiarini árið 2014 vegna gruns um vísindalegt misferli. Sænska læknablaðið (Läkartidningen) birti viðtal við Grinnemo 25. júní.
Grinnemo er mjög gagnrýninn á ákvörðun KI og segir að yfirlýsingin sé enn eitt skrefið í refsimenningu KI. Hann telur að þar á bæ reyni menn að bjarga eigin skinni með því að hjóla í þá sem vöktu athygli á misferli Macchiarinis.
Grinnemo var einn meðhöfunda greinarinnar í Lancet 2011. Hann kvaðst hafa skrifað skýrsluna þegar sjúklingurinn sem um ræðir útskrifaðist eftir mánaðardvöl á Karolinska háskólasjúkrahúsinu. Grinnemo segir að sú samantekt sé rétt. Greinin hafi verið send til New England Journal of Medicine. Síðan var hún send til Lancet og þá hafi Macchiarini breytt texta sjúkrasögunnar samkvæmt því sem Grinnemo taldi að væri rétt. Sjúklingurinn dvaldi þá á Íslandi og Grinnemo kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvernig honum leið, en treysti því að Macchiarini færi með rétt mál. Það var ekki fyrr en Grinnemo og aðrir uppljóstrarar skoðuðu málið 2013 að þeir sáu að þetta stemmdi ekki.
Aðspurður hvernig hann telur að KI hefði átt að bregðast við segir Grinnemo að KI hefði ekki átt að ákvarða um málið. Það sé eins og að láta þjálfara andstæðingsins í knattspyrnuleik ákvarða hvort um víti sé að ræða eða ekki. KI hafi sýnt að stofnunin hafi ekki verið til þess bær að taka eina einustu skynsamlega ákvörðun í þessu máli. Grinnemo kveðst ekki vita hvernig sé hægt að áfrýja þessu, en síðasta orðið hafi ekki verið sagt í málinu.
Carl-Magnus Hake, vísindaritstjóri hins sænska Dagens Medicin (DM), segir að það hafi ekki komið á óvart að Ole Petter Ottersen, rektor KI, hafi að lokum hafnað vísindagreinunum sem lýstu plastbarkaaðgerðum Paolos Macchiarinis á Karolinska háskólasjúkrahúsinu. Ábyrgð meðhöfunda hans sé umdeildari. Allir beri þeir einhverja ábyrgð en spurningin sé hvar mörk misferlisins liggi.
Þetta kemur fram í skoðanapistli sem Hake skrifar 29. júní í DM um að úrskurður Karolinsku stofnunarinnar (KI) í Macchiarini málinu veki margar spurningar. Hann segir m.a. að rannsókn DM á málinu sýni að gegnumgangandi gagnrýni á meintar ósanngjarnar tímasetningar hafi verið röng, sem ætti að fría vissa meðhöfunda frá ásökunum. Fleira veki spurningar. Álitsgerðin einkennist af eftirávisku. Meðhöfundar séu gagnrýndir fyrir að hafa ekki brugðist við harðri gagnrýni frá ritrýnum New England Journal of Medicine sem hafnaði handriti vísindagreinarinnar. Vissulega hefði það átt að hringja viðvörunarbjöllum. Þetta hafi þó ekki verið í fyrsta sinn sem þetta virtasta læknatímarit heimsins hafnaði handriti að grein. Sú ástæða ein hefði ekki verið ástæða til að meðhöfunda færi að gruna að um vísindalegt misferli væri að ræða.
Þá veki það athygli að í úrskurðinum sé ekki minnst á meintar blekkingar Macchiarinis og þannig dregið úr ábyrgð meðhöfundanna. Ítalski skurðlæknirinn hafi jú verið ráðinn sem „stjörnuvísindamaður“ við KI og því enn síður ástæða til að draga niðurstöður hans í efa. Af hálfu KI hafi frá upphafi ríkt sú hugsun að gera ætti aðgerðir af þessu tagi en ekki sé minnst á þessa afstöðu í úrskurðinum.
Þá veki það spurningu að ekki sé ljós skilgreiningin á því um hvers konar vísindalegt misferli úrskurðurinn fjalli. Það auki hættuna á geðþóttaákvörðun, ekki síst hvað varðar ábyrgð meðhöfundanna.
Johan Thyberg, læknir og prófessor við KI sem kominn er á eftirlaun, spyr í grein í Dagens Nyheter 28. júní hvaða skilaboð sé verið að senda uppljóstrurum framtíðarinnar með úrskurði KI í plastbarkamálinu. Hann bendir m.a. á að KI hafi ákveðið að láta alla höfunda greinar bera ábyrgð á innihaldinu. Það eigi sér stoð í sumum reglum en í reynd sé mjög erfitt að standa við þá afstöðu. Til dæmis séu 28 höfundar að greininni í Lancet 2011, en hún gegnir lykilhlutverki í málinu. Sumir þeirra séu ekki læknar og hafi lagt lítið af mörkum til heildarinnar.
Hann rekur sögu tveggja sjúklinga sem Macchiarini gerði plastbarkaaðgerðir á. Þar ræðir um annars vegar Andemariam Teklesenbet Beyene, sem bjó hér á landi, og hins vegar unga tyrkneska konu. Þau eru bæði látin. Uppljóstrararnir fjórir unnu á þeirri deild Karolínska háskólasjúkrahússins þar sem sjúklingarnir dvöldu vegna fylgikvilla og gat ekki annað en ofboðið það sem þeir sáu. Þeim hafi borið skylda til að vara við, þó ekki væri nema til þess að koma í veg fyrir fleiri aðgerðir af þessu tagi.
Í framhaldinu hafi þeir farið nákvæmlega í gegnum sex greinar þar sem aðgerðunum var lýst og borið þær saman við sjúkraskýrslurnar. Ástand sjúklinganna hafi verið sagt mun betra í greinunum en raunin var. Það hafi leitt til tilkynningar til rektors KI í ágúst 2014 um grun um vísindalegt misferli. Þeim sem tilkynntu málið hafi verið hótað uppsögnum og öðrum refsiaðgerðum vegna meintrar óleyfilegrar uppflettingar í sjúkraskrám. Thyberg segir að í raun hafi þáverandi rektor KI reynt að sópa málinu undir teppið. Svo hafi verið ákveðið í ágúst 2015 að leysa Macchiarini undan grun um vísindalegt misferli.
Eftir nýjar rannsóknir hafi KI staðfest að uppljóstrararnir höfðu rétt fyrir sér, nærri fjórum árum eftir að ásakanirnar komu fram. Með úrskurðinum sé staðfest að vísindalegt misferli hafi átt sér stað. Því miður sé það svo að einstaklingar sem höfðu takmarkaða sýn á verkefnið séu einnig dæmdir.