Vegurinn að skriðunni opnaður

Búið er að opna veginn en fólk verður samt sem …
Búið er að opna veginn en fólk verður samt sem áður að sýna aðgát. Ljósmynd/Mihails Ignats

Búið er að aflétta lokun á veginum meðfram Hítará sem lokað var í kjölfar skriðunnar sem féll úr Fagraskógarfjalli og ofan í Hítardal á laugardagsmorgun. Þetta staðfestir Jón S. Ólason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi.

Hann segir sveitarstjórn Borgarbyggðar nú vinna að því að setja upp aðvörunarskilti í stað lokunarskiltanna sem tekin hafa verið niður. Enn er talsverð hætta á grjóthruni á svæðinu en að sögn Jóns er ekki lengur talin ástæða til að banna umferð um svæðið. Fólk verði þó að sýna aðgát og vera skynsamt.

„Við ætlum að vara fólk við því að það geti orðið grjóthrun úr hlíðinni,“ sagði Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, þegar mbl.is náði tali af honum þar sem hann var staddur á svæðinu nú seinnipartinn. Skiltunum verður komið upp eins fljótt og auðið er.  „Þetta er ekkert hættusvæði lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert