Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 5. júlí um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni á fimmtugsaldri sem sakaður er um að hafa beitt börn grófu kynferðisofbeldi er hann starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg. Í úrskurðinum kemur fram að gæsluvarðhaldið skuli vara þar til dómur gengur í málinu en þó ekki lengur en til 2. ágúst nk.
Í forsendum Landsréttar kemur fram að maðurinn sé vistaður í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Í greinargerð ákæruvaldsins segir að maðurinn sé, að mati ríkissaksóknara, undir sterkum grun um ítrekuð og langvarandi kynferðisbrot. Ekki þóttu efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en gert var í úrskurði héraðsdóms.
Maðurinn, sem er ákærður fyrir brot gegn fjórum börnum, neitaði sök við þingfestingu málsins. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 29. júní og er dómsuppkvaðningar að vænta á næstu vikum.