Fyrstu athuganir gefa til kynna að um sjö milljónir rúmmetra „vanti“ í hlíðar Fagraskógarfjalls ofan skriðtungunnar og dalbotnsins. Skriðan reif með sér meira efni og hækkun lands á dalbotninum er um 10 milljón m3. Skriðan plægði sig niður í jarðlög á dalbotninum og því nær hún líklega talsvert niður fyrir fyrra yfirborð hans, að mati vísindamanna Veðurstofu Íslands. Erfitt er að áætla þann hluta, segir í frétt frá Veðurstofunni, en heildarrúmmál skriðuurðarinnar kann að vera á bilinu 10–20 milljón m3 þegar allt er talið. Unnið er að frekari greiningu á rúmmálinu.
Að morgni 7. júlí féll stór skriða eða framhlaup úr Fagraskógarfjalli í Hítardal. Skriðan fór yfir Hítará og stíflaði hana með þeim afleiðingum að lón myndaðist ofan skriðutungunnar.
Útbúið hefur verið landlíkan af skriðunni byggt á ljósmyndum sem teknar voru úr þyrlu, GPS-mælingum og mælingum með TLS-leysitæki. Gagnvirkt þrívíddarkort af landlíkaninu sýnir vel umfang framhlaupsins.
Í frétt Veðurstofunnar segir að lagt hafi verið bráðabirgðamat á rúmmál framhlaupsins út frá nýja landlíkaninu með samanburði við landlíkan frá því áður en skriðan féll.
Svokallaðar bylgjuvíxlmælingar (InSAR) úr Sentinel-1 gervitunglum sýna að svæðið þar sem skriðan féll hefur verið á hreyfingu í einhvern tíma fyrir framhlaupið, segir í samantekt Veðurstofunnar. Urðin sem framhlaupið kom úr sker sig úr umhverfinu á radarmyndum sem unnar hafa verið. Hreyfingin síðustu daga fyrir framhlaup hefur numið að minnsta kosti einhverjum sentímetrum, en einnig sést að svæðið var á hreyfingu árin 2017, 2016 og 2015 en hreyfingin var hægari. Það eru Vincent Drouin hjá Háskóla Íslands og Landmælingum Íslands sem unnu greininguna.
„Að hreyfing sjáist á svæðinu áður en skriðan féll styrkir þá túlkun að stór framhlaup hafi venjulega einhvern aðdraganda sem hægt er að greina með gervitunglagögnum eða öðrum mælingum,“ segir í umfjöllun Veðurstofunnar. Vonir standa til þess að hægt verði að skoða sérstaklega þær hlíðar ofan byggðar og fjölfarinna staða þar sem möguleiki er talinn á óstöðugleika og greina svæði sem eru á hreyfingu. Þau yrði síðan hægt að vakta með sömu tækni.
Stórar skriður hafa verið áberandi á undanförnum árum og ekki er hægt að útiloka að þær séu að verða tíðari vegna loftslagsbreytinga, segir í samantekt Veðurstofunnar. „Það er þó erfitt að fullyrða um þetta vegna þess að tilvikin eru fá og það þarf langan tíma til þess að breyting verði tölfræðilega marktæk.“
Loftslagsbreytingar gætu aukið skriðuhættu vegna þriggja mismunandi tegunda af skriðuföllum sem viðkvæmar eru fyrir breytingum í veðurfari:
Náttúrufræðistofnun hefur tekið saman áhugaverðan lista yfir stórar skriður sem hafa fallið frá miðri síðustu öld. Þar sést að Hítardalsskriðan var óvenju stór og efnismikil.
Teknar voru innrauðar hitamyndir af framhlaupinu og upptökum þess með sérstakri myndavél frá Jarðvísindastofnun Háskólans. Ef sífreri hefði verið í skriðusárinu eða sífreraklumpar í skriðuurðinni þá hefði það komið fram á mynd sem svæði með hita nærri frostmarki, einkum þar sem vatn rann úr sprungum í skriðusárinu.
„Sú var ekki reyndin og því er talið ólíklegt að framhlaupið úr Fagraskógarfjalli tengist sífrera. Hlíðin er ekki mjög há (efsti punktur er 680 m y.s.) og hún snýr til suðausturs. Sífreri er helst talinn leynast í hærri hlíðum og/eða skuggsælum norðurhlíðum þar sem freri er stundum í og undir skriðuurðum,“ segir í samantekt Veðurstofu Íslands.