Mosfellsdalur á altari ferðamennskunnar

Íbúar í Mosfellsdal ákváðu að mála á strætóskýli við Þingvallaveg …
Íbúar í Mosfellsdal ákváðu að mála á strætóskýli við Þingvallaveg í dag, leiðbeiningar um að þar sé bannað að leggja. Ferðamenn leggja ítrekað bílum sínum við skýlin. mbl.is/Árni Sæberg

„Dalurinn er orðinn að einhverri hraðbraut án þess að við íbúar höfum nokkuð um það að segja,“ segir Guðný Halldórsdóttir leikstjóri og íbúi í Mosfellsdal. Um dalinn liggur Þingvallavegur, sem tengir höfuðborgina við þjóðgarðinn og aðra ferðamannastaði. Mikil umferð er um veginn. hún hefur stóraukist undanfarin ár og telur nú yfir 4.000 bíla á sólarhring að sumarlagi.

Aðspurð segir Guðný að bílafjöldinn sé aðalvandamálið en hraðakstur sé það líka. Þegar blaðamaður nær tali af Guðnýju er hún nýkomin inn í hús eftir að hafa, ásamt nokkrum íbúum í dalnum, verið að hreinsa upp brot úr bílunum sem rákust saman í gærkvöldi, en einn lést í slysinu.

„Það sorglegasta er að þetta kemur ekki á óvart. Bara í fyrradag skrifaði ein kona í hverfinu að það væri rússnesk rúlletta að keyra í búðina á hverjum degi,“ segir hún.

Guðný Halldórsdóttir leikstjóri var sæmd heiðursverðlaunum á Eddunni fyrr á …
Guðný Halldórsdóttir leikstjóri var sæmd heiðursverðlaunum á Eddunni fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja nýjan gamlan veg

Íbúasamtök Mosfellsdals hafa lengi talað fyrir því að nýr Þingvallavegur verði lagður til að hlífa dalbúum fyrir umferðinni. Meðal hugmynda er að slíkur vegur byrji við Nesjavallarveg austan við Krókatjörn og endi við Þingvallarveg móts við Kjósarskarðsveg. Þar lá eitt sinn vegurinn til Þingvalla og hefur hann því verið nefndur Gamli Þingvallavegur.

Íbúasamtökin fengu í fyrra verkfræðistofuna Verkís til að útbúa minnisblað þar sem lagt er mat á tillöguna. Samkvæmt henni myndi veglagningin kosta rétta tvo milljarða króna. Engin áform eru um að leggja þann veg, en þess í stað er stefnt að því að breyta þeim vegi sem fyrir er, breikka hann (án þess þó að fjölga akreinum) og koma upp tveimur hringtorgum á gatnamótum til að koma í veg fyrir framúrakstur.

Guðnýju hugnast hringtorgin illa. „Það þrífst ekkert líf í kringum hringtorg. Ef þeir ætla að planta niður hringtorgum í þessum dal. Þá eru þeir að eyðileggja mannlífið,“ segir hún og nefnir að þegar þurfi að keyra um sjö hringtorg, hið minnsta, til að komast inn í dalinn neðan úr bæ.

Tala fyrir daufum eyrum

Guðný segir að íbúar í dalnum tali fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Einu sinni hafi Íbúasamtökin átt fund bókaðan með Jóni Gunnarssyni, sem þá var samgönguráðherra, en hann hafi ekki einu sinni nennt að mæta og borið við að hann hefði verið að koma úr öðru tímabelti og væri þreyttur. Í janúar pöntuðu samtökin fund með Sigurði Inga samgönguráðherra en síðast þegar Guðný athugaði voru þau númer 27 á biðlista.

Þá sé lítill samstarfsvilji hjá Vegagerðinni. „Þeir láta alltaf eins og við séum óvinir þeirra. Við höfum margoft fundað með þeim, en það er alltaf talað við okkur eins og við hötum þá. Sem við gerum ekki,“ segir Guðný.

Þétt umferð var í Mosfellsdal í dag er ljósmyndari mbl.is …
Þétt umferð var í Mosfellsdal í dag er ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins mætti á svæðið. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir núverandi Þingvallaveg einkennilegan veg. Hann var lagður í flýti fyrir alþingishátíðina á Þingvöllum 1930. Þjóðin hafi verið fátæk og því reynt að spara. Vegurinn ber þess merki að vera lagður þannig að sem styst hafi þurft að ferja sandinn og mölina. Þannig liggi hann mjög einkennilega í landslaginu.

Fórnum ekki byggð á altari ferðamennskunnar

Hin stóraukna umferð um Mosfellsdal skýrist, sem fyrr segir, að mestu af aukinni ferðamennsku en leiðin að Gullna hringnum svonefnda fer um dalinn. Í úttekt Verkís kemur fram að umferð um Þingvallaveg ofan Helgafellsmelar jókst um 150% á milli 2011 og 2016.

„Við erum búin að fórna Þingvöllum á altari ferðamennskunnar en það er óþarfi að byggðin á leiðinni fari sömu leið. Gullni hringurinn verður að vera þannig að fólk geti búið í kringum hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert