Bíða eftir niðurstöðu bíltæknirannsókna

Þingvallavegur í Mosfellsdal, nærri staðnum þar sem banaslysið átti sér …
Þingvallavegur í Mosfellsdal, nærri staðnum þar sem banaslysið átti sér stað. mbl.is/Árni Sæberg

Kona um þrítugt ók öðrum jeppanum í banaslysinu sem varð í Mosfellsdal fyrr í þessum mánuði. Þetta segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við Vínlandsleið. Hann bætir við að konan hafi sloppið að mestu við meiðsli. 

Kona á níræðisaldri sem var farþegi í hinum jeppanum fórst í slysinu sem varð eftir framúrakstur konunnar á hinum jeppanum.

Farið var með bílana tvo í svokallaðar bíltæknirannsóknir, meðal annars til að skera úr um hvort að um hraðakstur hafi verið að ræða. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst úr þeim rannsóknum.

Búið er að ræða við öll vitni í málinu og miðar rannsókninni vel að sögn Valgarðs.

Spurður út í mögulega ákæru segir hann að málið verði sent til ákærusviðs lögreglunnar þegar öll gögn verða komin í hús. Ákærusviðið mun því næst taka ákvörðun um framhaldið.

Áreksturinn varð til móts við afleggjarann að Æsustöðum er annar bíllinn var að taka fram úr bílum á Þingvallaveginum. Konan sem ók þeim bíl var ein á ferð en konan sem lést var farþegi í bíl sem hún var að taka fram úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert