Hraðakstur í meðallagi í Mosfellsdal

Íbúar í Mosfelldal gripu til aðgerða í gær til að …
Íbúar í Mosfelldal gripu til aðgerða í gær til að vekja athygli á því að bannað væri að leggja við strætóskýli á Þingvallaveginum. mbl.is/Árni Sæberg

Hraðamælingar lögreglu í Mosfellsdal á síðustu tveimur árum benda ekki til þess að hraðakstur sé áberandi mikill á Þingvallavegi. Nokkrum sinnum á undanförnum árum hefur hraði ökumanna á veginum verið mældur með sérstökum hraðamælingabíl lögreglunnar og samkvæmt mælingunum er svonefnt brotahlutfall í meðallagi. Einnig sinna lögreglumenn á mótorhjólum og almennum lögreglubifreiðum hraðaeftirliti á veginum.

„Fyrir um tveimur árum kvörtuðu íbúar sérstaklega undan hraðakstri í Mosfellsdalnum. Þá gerðum við mælingar þarna í báðar akstursstefnur. Útkoman leiddi í ljós að þarna er ekki um áberandi hraðakstur að ræða. Það var niðurstaðan. Þó eru þarna ökumenn sem fara hressilega yfir mörkin eins og á öllum öðrum götum,“ segir Ragnar Þór Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hann hefur yfirumsjón með sérstökum hraðamælingabíl lögreglunnar og hraðamyndavélum á gatnamótum.

Brotahlutfall á veginum 7%

Lögregla notast við svonefnt brotahlutfall, eða hlutfall þeirra ökumanna sem mælast yfir því viðmiði sem lögreglu ber að hafa. „Á þessum vegi er hámarkshraðinn 70 kílómetrar á klukkustund. Allir sem keyra á 79 kílómetra hraða á klukkustund eða hraðar eru hluti af þessu brotahlutfalli. Meðaltalið á þessum vegi er kringum 7%,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór segir að almennt sé brotahlutfall í þjóðvegakerfinu á bilinu 5-11%. Aðspurður segir hann að brotahlutfallið á Þingvallavegi hafi staðið í stað í langan tíma og ekki breyst milli mælinga. 

Íbúar í Mosfellsdal hafa kallað eftir aðgerðum Vegagerðarinnar eftir að banaslys varð á veginum á laugardag. Varð slysið við framúrakstur. Íbúar hafa kallað veginn hraðbraut, segja þeir að hratt sé ekið á veginum og að framúrakstur sé tíður. Einnig stöðvi margir ferðamenn á veginum til að mynda hesta á beit og valdi þannig stórhættu.

„Þessi vegur býður auðvitað upp á hraðakstur. Hann er alveg þráðbeinn í gegnum dalinn. Þrátt fyrir þetta er það svo að brotahlutfallið er almennt ekki hátt þarna,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert