Mála heila línu í Mosfellsdal

Í morgun var hafist handa við að mála heila miðlínu …
Í morgun var hafist handa við að mála heila miðlínu á kafla Þingvallavegar í gegnum Mosfellsdal. mbl.is/Árni Sæberg

Hafist var handa í morgun við að mála heila miðlínu á vegarkafla á Þingvallavegi í Mosfellsdal. Þar með verður framúrakstur bannaður á kafla í dalnum þar sem fjöldi afleggjara liggur að veginum. Íbúar hafa lengi krafist úrbóta á veginum þar sem þeir segja hraða- og framúrakstur tíðan. Banaslys varð á vegkaflanum á laugardag og ákvað Vegagerðin í kjölfarið að banna framúrakstur.

Vegagerðin ákvað að bregðast strax við með þessum hætti, en að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, starfandi forstjóra Vegagerðarinnar, hefur verið unnið að deiliskipulagi ásamt sveitarstjórn þar sem gert er ráð fyrir tveimur til þremur hringtorgum á veginum. Í þá vinnu verður þó líklegast ekki farið fyrr en á næsta ári. Deiliskipulagið er enn í auglýsingu.

Bílarnir sem lentu í árekstri til móts við Æsustaðaafleggjara á laugardag voru báðir í leið í vesturátt í átt að Mosfellsbæ. Annar bíllinn var að taka fram úr á Þingvallavegi. Sá bílstjóri var einn á ferð en það var farþegi í hinum bílnum sem lést í slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert