Margar tillögur liggja fyrir aukafundi borgarráðs Reykjavíkur um mál heimilislausra sem hófst klukkan ellefu í dag, en fulltrúi minnihlutans segir meirihlutann sýna málaflokknum skilningsleysi. Meirihlutinn mun leggja fyrir fundinn tillögupakka, en formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, segist ekki vilja skýra frá miklu um tillögur meirihlutans fyrir fundinn.
Þá hyggst minnihlutinn einnig leggja til fjölda tillagna, bæði frá stökum flokkum minnihlutans og í sameiningu. Minnihlutinn leggur fyrir fundinn 14 tillögur og/eða fyrirspurnir sem varða allt frá skipulagsmálum yfir í lækkun stöðugjalda fyrir langtímaleigu á tjaldsvæðinu í Laugardalnum.
Minnihlutinn hafði óskað eftir aukafundi borgarráðs vegna „neyðarástands sem nú ríkir meðal sífellt fleiri heimilislausra í Reykjavík.“ Meirihlutinn ákvað að verða við ósk minnihlutans og er fundur því haldinn í dag.
Þórdís Lóa segir í samtali við blaðamann mbl.is að meirihlutinn muni leggja fyrir tillögupakka að úrræðum fyrir heimilislausa og tekur jafnframt fram að hópurinn sem um ræðir sé fjölbreyttur og að að úrræðin geti ekki verið eins fyrir alla. Hún segist ekki útiloka tillögur minnihlutans í málaflokknum og að hún sé reiðubúin til þess að ræða allar góðar tillögur.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir í samtali við blaðamann að nú sé mikilvægast að fara í aðgerðir þar sem brýn nauðsyn blasi við. Hún segir óásættanlegt að fólk sé á vergangi milli húsakosta, í tjöldum og upp á ættingja komið. Jafnframt bindur hún vonir við að hægt verði að afgreiða afgreiða tillögur frá minnihlutanum sem eru til bóta.
Samkvæmt Kolbrúnu hefur ekki verið haldinn fundur í velferðarráði enn um málaflokinn, en það standi til að ræða málið 10. ágúst. Hún segist slegin yfir orðum Heiðu B. Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og formanns velferðarráðs, á Rás 2 í morgun. Þar sagði Heiða sagði að ekkert myndi gerast í vikunni og lauk viðtalinu með því að segja að fundurinn í dag væri til að upplýsa nýja borgarfulltrúa um stöðu mála.
„Með þessum orðum fannst mér að verið sé að gera lítið úr þessu máli og eiginlega bara vera lýsandi fyrir skilningsleysi meirihlutans á alvarleika þessa málaflokks sem hefur verið vanræktur árum saman,“ segir Kolbrún.