„Hann má svo sann­ar­lega ekki gleyma okk­ur“

Heimilslausir vona að Einar gleymi þeim ekki.
Heimilslausir vona að Einar gleymi þeim ekki. Samsett mynd

Heimilslaust fólk í Reykjavík vonar að Einar Þorsteinsson, nýr borgarstjóri, taki á málefnum heimilislausra. Lengi hafa þeir mótmælt því að neyðarskýli séu ekki opin allan sólarhringinn, sérstaklega á veturna þegar kalt er í veðri.

Ragnar Erling Hermannsson mótmælti ásamt félögum sínum opnunartíma í neyðarskýlinu á Granda í dag.

„Við erum að mótmæla því að menn þurfi að fara upp úr rúmi og út úr húsi í kulda,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Ná ekki bata

Hann bætir við að margir sem sæki neyðarskýlið á Granda séu fárveikir og þeir nái ekki heilsu þar sem þeir geti ekki hvílt sig inni.

Heimilslausum býðst að verja tíma sín­um á kaffi­stofu Sam­hjálp­ar þegar lokað er í neyðar­skýl­um. Ragnar segir það ekki vera hentugt fyrir þá sem eru veikir því þeir þurfi þá að fara út í kuldann og koma sér frá neyðarskýlinu til Samhjálpar.

Heimilslausir eru ósáttir við opnunartíma neyðarskýla
Heimilslausir eru ósáttir við opnunartíma neyðarskýla mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimilislausir gleymist alltaf

Ragnar segir heimilislausa alltaf vera þann hóp sem gleymist. Þeir voni að nýr borgarstjóri gleymi þeim ekki.

„Við þurfum bara að halda þessu áfram til þess að láta okkar hóp ekki alltaf gleymast,“ segir Ragnar og bætir við:

„Það verður spennandi að sjá hver verkefni nýs borgarstjóra verða. Hann talar um að húsnæðismálin þurfi að vera efst á baugi. Hann má svo sannarlega ekki gleyma okkur þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert