Tókst ekki að sanna sekt mannsins

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness, sem sýknaði á mánudag stuðningsfulltrúa af ákærum um að hafa beitt fjögur börn grófu kynferðisofbeldi, segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist nægilega að sanna sekt mannsins enda þurfi að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot sem ákært er fyrir.

Þetta kemur fram í dómnum sem var birtur í dag. 

Auk þess að sýkna manninn af kröfum ákæruvaldsins var einkaréttarkröfum brotaþolanna vísað frá dómi. Auk þess greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda mannsins 20.144.940 krónur, og útlagður kostnaður verjandans, 77.000 krónur. Enn fremur þóknun réttargæslumannanna, samtals um fjórar milljónir króna. 

Rannsókn lögreglu hófst í ágúst 2017

Héraðssaksóknari ákærði manninn fyrir kynferðisbrot í apríl og var ákæran í fimm liðum. 

Málið átti upphaf sitt í kæru brotaþola til lögreglu 22. ágúst 2017. Hófst þá rannsókn lögreglu á meintum brotum mannsins.  Maðurinn var handtekinn 18. janúar og í apríl ákærði héraðssaksóknari manninn fyrir kynferðisbrot, en ákæran var í fimm liðum. Dómur féll 30. júlí og í kjölfarið var manninum sleppt úr haldi, en hann hafði setið í gæsluvarðhaldi frá því hann var fyrst handtekinn í janúar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi ávallt neitað sök hvað allar sakargiftir málsins snerti.

Ákæran í fimm köflum

Í fyrsta kafla ákærunnar var manninum gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í fjölmörg skipti haft önnur kynferðismök við drenginn og áreitt hann kynferðislega, á tímabilinu 2004 til 2010 er hann var 7 til 13 ára gamall, með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað sem fjölskylduvinur sem hafði verið trúað fyrir honum til kennslu og uppeldis, beita hann ofbeldi og sumpart notfæra sér ástand hans með nánar tilgreindum hætti. 

Varðandi þennan kafla segir í dómi héraðsdóms, að það sé álit dómsins að með framburði brotaþola og vitna hafi nokkur líkindi verið færð að sekt mannsins samkvæmt ákæru. „Framhjá hinu verði hins vegar ekki litið, að um það sem máli skiptir standa orð brotaþola gegn orðum ákærða. Þá telur dómurinn að þau óbeinu sönnunargögn sem fram hafa verið færð í málinu nægi ekki til þess að renna svo skýrum stoðum undir sekt ákærða eða framburð vitna að nægi til sakfellingar. Í þessu samhengi áréttar dómurinn að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar hafi borið ákærða sökum, sem um er fjallað í þessu máli, og það kunni að renna stoðum undir framburð brotaþola, verði engu að síður að koma fram fullnaðarsönnun um hvert það brot sem ákært er fyrir,“ segir orðrétt í dómnum.

Það er því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að maðurinn hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök í þessum kafla ákærunnar og var hann því sýknaður. 

Í öðrum kafla ákærunnar er manninum gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa haft önnur kynferðismök við stúlku einhvern tímann á árunum 2005 til 2008, þegar hún var 7 til 10 ára gömul og gisti á heimili og í rúmi mannsins.

Héraðsdómur segir að með framburði brotaþola og vitna sé það álit dómsins að líkindi hafi verið færð að sekt mannsins samkvæmt ákæru. „Framhjá hinu verði hins vegar ekki litið, að um það sem máli skiptir standa orð brotaþola gegn orðum ákærða. Þá telur dómurinn að þau sönnunargögn sem fram hafa verið færð í málinu nægi ekki til þess að renna svo skýrum stoðum undir sekt ákærða eða framburð vitna að nægi til sakfellingar. Í þessu samhengi áréttar dómurinn að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar hafi borið ákærða sökum sem um er fjallað í þessu máli, og það kunni að renna stoðum undir framburð brotaþola, verði engu að síður að koma fram fullnaðarsönnun um hvert það brot sem ákært er fyrir,“ segir orðrétt og maðurinn því sýknaður. 

Í þriðja kafla ákærunnar er manninum gefið að sök að hafa nauðgað brotaþola árið 2006 á heimili sínu.

Héraðsdómur segir í dómi sínum, að engra sérstakra gagna njóti í málinu sem rennt geti stoðum undir það að maðurinn eigi rót í meintu kynferðisofbeldi. „Enn áréttar dómurinn að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar en brotaþoli hafi borið ákærða sökum sem um er fjallað í þessu máli, og það kunni út af fyrir sig að renna stoðum undir framburð brotaþola, verði engu að síður að koma fram fullnaðarsönnun um hvert það brot sem ákært er fyrir. Að mati dómsins hefur ákæruvaldinu ekki lánast sú sönnun í þessu tilviki,“ segir í dómnum og maðurinn sýknaður af þessum ákærulið. 

Í fjórða kafla ákærunnar var manninum gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í fjölmörg skipti haft önnur kynferðismök við dreng á tímabilinu 1998 til 2004 eða 2005, er hann var 6 ára til 12 eða 13 ára gamall, með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart drengnum og traust hans og trúnað sem móðurbróðir sem hafði verið trúað fyrir honum til kennslu og uppeldis auk þess að beita hann ofbeldi, sem nánar greinir í ákæru.

Héraðsdómur segir, að það sé álit dómsins að með framburði brotaþola og vitna hafi nokkur líkindi verið færð að sekt ákærða samkvæmt ákæru. „Framhjá hinu verði hins vegar ekki litið, að um það sem máli skiptir standa orð brotaþola gegn orðum ákærða. Þá telur dómurinn að þau sönnunargögn sem fram hafa verið færð í málinu nægi ekki til þess að renna svo skýrum stoðum undir sekt ákærða eða framburð vitna að nægi til sakfellingar. Í þessu samhengi áréttar dómurinn að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar en brotaþoli hafi borið ákærða sökum sem um er fjallað í þessu máli, verði engu að síður að koma fram fullnaðarsönnun um hvert það brot sem ákært er fyrir,“ segir orðrétt í dómnum og var maðurinn því sýknaður af þessum ákærulið.

Þarf að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot

Í fimmta kafla ákærunnar er manninum gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa áreitt dreng kynferðislega og haft við hann önnur kynferðismök, á árinu 2002 eða 2003, er drengurinn var 13 eða 14 ára gamall og gisti í rúmi ákærða á heimili hans. 

Í niðurstöðu sinni áréttar dómurinn, að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar hafi undir rannsókn málsins sett fram kærur á hendur manninum, sem um er fjallað í þessu sama máli, og það kunni út af fyrir sig að renna stoðum undir framburð brotaþola, „verði það eitt og sér ekki lagt til grundvallar sakfellingu ákærða.  Þá skal því enn haldið til haga að við leit á heimili ákærða og í tölvubúnaði hans og tækjum fannst ekkert saknæmt sem rennt gæti stoðum undir sekt ákærða. Þá verður mat AK sálfræðings á ákærða hvorki lagt til grundvallar um sekt hans eða sakleysi.“

Að öllu ofangreindu virtu sé það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist nægilega að sanna sekt ákærða hvað varðar þennan ákærulið, enda þurfi að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot sem ákært sé.

„Með vísan til ofanritaðs telur dómurinn ákæruvaldið ekki hafa axlað sönnunarbyrði samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um í þessum ákærulið. Þær staðhæfingar sem málið byggst á hafi ekki verið sannaðar,“ segir í dómnum og maðurinn því sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert