Hlaup að hefjast í Skaftá

Skaftárhlaup geta verið mikil.
Skaftárhlaup geta verið mikil. mbl.is/RAX

Í nótt urðu sérfræðingar Veðurstofu Íslands varir við að GPS-mælir, sem er við Eystri-Skaftárketilinn í Vatnajökli, lækkaði sem bendir til þess að vatn sé tekið að streyma úr katlinum og Skaftárhlaup því að hefjast.

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni. Það tekur vatnið um 1-3 sólarhringa að ferðast undir jöklinum og út í Skaftá og því hafa engar breytingar mælst á ánni enn sem komið er. Eftir að vatnið kemur undan jöklinum tekur það um fimm til sex klukkustundir fyrir það að ná að fyrsta vatnamælinum.

Sérfræðingar Veðurstofunnar munu funda með almannavörnum klukkan tvö í dag og á þeim fundi verður reynt að leggja mat á stærð mögulegs hlaups. Einar segir að minna vatn sé í eystri katlinum núna en árið 2015 er vatn úr honum hljóp síðast niður Skaftá.

Upptök Skaftár eru í Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó. Undir Skaftárjökli er jarðhitasvæði þar sem vatn safnast í tvo katla. 

Meðalrennsli Skaftár við Sveinstind er um 50 m³/s en í stærstu hlaupum getur það farið í 1.800 rúmmetra á sekúndu. Að meðaltali hleypur úr kötlunum á tveggja ára fresti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert