Búist er við að Skaftárhlaup hefjist síðdegis á morgun og nái hámarki á laugardagskvöld, degi fyrr en áður var talið. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is en Veðurstofan fundaði í dag með almannavörnum vegna málsins.
Það er ekki einungis vatnið sem veldur áhyggjum. Í Skaftárhlaupum losnar jafnan um brennisteinsgös sem eru innilokuð í katlinum en streyma út samfara vatninu. Af þeim sökum er varasamt að vera nálægt upptökum hlaupsins, við jökuljaðarinn, meðan á hlaupinu stendur. Við þetta bætist að lygnt er í Vestur-Skaftafellssýslu núna og gæti gasið því safnast saman í lægðir.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að styrkur gassins geti verið svo mikill að það geti skaðað skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Er ferðafólki því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
Sveinn K. Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að almannavarnir grannt með gangi mála og verið sé að undirbúa lokanir á einhverjum vegum. Það muni skýrast betur á morgun.
Greint var frá því í hádeginu að GPS-mælir, við Eystri-Skaftárketil í Vatnajökli, hefði farið að síga upp úr miðnætti í nótt sem bendir til þess að vatn sé farið að flæða undan katlinum.
Kristín segir að gerð hafi verið líkön af því hvað gerist í svona flóði og megi búast við að vatn flæði um Hólaskjól, sem er um 50 kílómetra norðvestan af Kirkjubæjarklaustri, og Sveinstind svo dæmi séu tekin.
Sérfræðingar Veðurstofunnar verða sendir á vettvang, að öllum líkindum á morgun, enda segir Kristín að þeir vilji ekki missa af hlaupbyrjun.