Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jökulhlaups úr Eystri-Skaftárkatli sem hófst fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef almannavarna.
Óvissustigi almannavarna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað
Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn til að kanna aðstæður og þá mun lögreglan á Suðurlandi, landverðir og hálendisvakt Landsbjargar verða við eftirlit á svæðinu um helgina.
Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við lögregluna á Suðurlandi og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Þá hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg sent hópa sem eru á hálendisvakt til þess að rýma Langasjó, Sveinstind-Skælinga og inn að Hólaskjóli.
Frekari mælingar verða gerðar í og við jökulinn á næstu dögum sem gefa vonandi betri mynd af atburðarásinni sem er í gangi. Fólk er beðið um að sýna aðgát og tillitsemi og virða lokanir.