Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur gefið út dagskrá fyrir fund ráðsins um stöðu heimilislausra í Reykjavík sem fer fram 10. ágúst. Fundinum var flýtt í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis, sem var birt 16. júlí, þar sem kom m.a. fram að fjöldi utangarðsfólks í Reykjavík hefur aukist um 95% frá árinu 2012. Gert er ráð fyrir því að hagsmunaaðilar svari þremur spurningum á fundinum.
Í fundarboði velferðarráðs segir m.a. að tilgangur fundarins sé að leita úrbóta í málefnum utangarðsfólks með því að varpa sem víðtækustu ljósi á vandann og hlusta á sjónarmið þeirra sem standa honum næst. Þá segir að fundurinn muni marka fyrstu skrefin í nýrri stefnumótun Reykjavíkurborgar en núverandi stefna borgarinnar í málefnum utangarðsfólks rennur út á þessu ári.
Fundurinn hefst á kynningu á húsnæðisúrræðum fyrir utangarðsfólk og uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar. Þá fer fram kynning á áliti umboðsmanns Alþingis og viðbrögðum velferðarsviðs við því.
Fyrri hluti fundarins verður opinn hagsmunaaðilum sem og notendum þjónustu Reykjavíkurborgar. Yfir 30 hagsmunaaðilar og önnur samtök hafa verið boðuð á fundinn og er gert ráð fyrir því að fulltrúar þeirra taki til máls. Velferðarráð hefur óskað eftir því að aðilar undirbúi sig fyrir fundinn og svari þremur spurningum í stuttu máli. Spurningarnar eru:
1. Hver er að mati þinnar stofnunar/samtaka helsti vandi sem blasir við utangarðsfólki í dag?
2. Hverjar eru lausnir á þeim vanda?
3. Hvernig á að forgangsraða lausnum?
Boðað var til aukafundar í borgarráði Reykjavíkur sl. þriðjudag að beiðni minnihlutans í borginni um það „neyðarástand“ sem ríkir í málum heimilislausra í Reykjavík. Þar voru lagðar fram ýmsar tillögur til úrbóta bæði frá meiri- og minnihluta. Tillaga frá meirihlutanum sem var í átta liðum var samþykkt auk tillagna frá Flokki fólksins og Sósíalistaflokki Íslands.
Eftir þann fund lýstu fulltrúar minnihlutans yfir vonbrigðum með fundinn og sögðu hann ekki hafa borið þann árangur sem vonir stóðu til. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósílistaflokksins, gagnrýndi m.a. að tillögum hennar hefði verið vísað til velferðarráðs með tilheyrandi töfum.
„Þannig er nú mál með vexti að velferðarráð er í sumarleyfi, þannig að afgreiðsla málsins frestast. Tillagan gekk hins vegar út á að Reykjavíkurborg komi tafarlaust á ólíkum leiðum að búsetuúrræðum fyrir húsnæðislausa einstaklinga. Með því að vísa málinu til velferðarráðs tefst þessi málsmeðferð,“ sagði Sanna, við blaðamann mbl.is, eftir fundinn á þriðjudag.
Boð á fundinn fengu:
Afstaða
Barnaverndarstofa
Barka
Draumasetrið
Félagsbústaðir
Geðhjálp
Geðsvið Landspítalans
Gistiskýlið Lindargötu
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Hjálparstarf kirkjunnar
Hjálpræðisherinn
Hlaðgerðarkot
Íbúðalánasjóður
Krýsuvíkursamtökin
Kærleikssamtökin
Ljósbrot
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkur
notendur þjónustu Reykjavíkur
Nýtt-Takmark
Olnbogabörn
Rauði kross Íslands
Rótin
Samhjálp
SÁÁ
skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur
SEA
Velferðarráðuneytið
umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur
velferðarvaktin
VoR-teymi
þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.