Lögreglumenn hafa brugðið á það ráð að saga vegrið af brúnni við Eldvatn. Í samtali við mbl.is segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, að það sé gert til að minnka hættuna af því að áin hrífi brúna með sér.
Brúin hefur verið lokuð fyrir bílaumferð síðan í gærkvöldi og umferð gangandi var einnig lokað fyrr í dag. Hjáleið er opin um svokallaða Hrífunesleið inn í Skaftártungu.
Rennsli Skaftár við Sveinstind virðist hafa náð hámarki en búist við að það nái að þjóðveginum í kvöld. Aðspurður segir Sveinn þjóðveginn ekki vera í hættu nema að hlaupið verði þeim mun stærra.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafa tilkynningar borist frá Kirkjubæjarklaustri og nágrenni um brennisteinslykt en ólíklegt þykir þó að gasmengun frá hlaupinu skapi hættu við þjóðveginn.