Talsvert um að lokanir séu ekki virtar

Streymi, litur og áferð Skaftár hefur breyst mikið eftir að …
Streymi, litur og áferð Skaftár hefur breyst mikið eftir að jökulhlaup hófst úr Eystri-Skaftárkatli fyrir um það bil sólarhring. mbl.is/RAX

Flætt hefur yfir veginn á einum stað þar sem lokanir eru í gildi vegna jökulhlaupsins sem hófst í gær úr Eystri-Skaftárkatli. Vegurinn upp í Skaftártungu við Búland og inn á Nyrðra-Fjallabak er lokaður líkt og þegar hlaupið varð árið 2015 og verða lokanir í gildi á meðan hlaupið gengur yfir.

Eld­vatns­brú við Ytri-Ása í Skafta­fells­sýslu er einnig lokuð en brúin er illa farin eftir hlaupið fyrir þremur árum. Vega­gerðin er með sérstakar varúðarráðstaf­an­ir við brúna.

Lögreglan á Suðurlandi, landverðir og hálendisvakt Landsbjargar hafa verið við eftirlit á svæðinu frá því í gær og segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, að eftirlitið hafi gengið vel en nokkur tilvik hafa komið upp þar sem lokanir eru ekki virtar.

„Að vanda eru Íslendingar alltaf að fara fram hjá lokunum, þeir vilja sjá mest og finna hjáleiðir fram hjá lokununum,“ segir Sveinn.

Vegurinn upp í Skaftártungu við Búland og inn á Nyrðra-Fjallabak …
Vegurinn upp í Skaftártungu við Búland og inn á Nyrðra-Fjallabak er lokaður vegna Skaftárhlaups sem hófst í gær. mbl.is/JAX

Óvissustigi almannavarna var lýst yfir í gær og er enn í fullu gildi. Sveinn segir að óvissustigi sé ekki lýst yfir að óþörfu og brýnir því fyrir fólki að virða lokanir sem í gildi eru.

Rennslið í Skaftárhlaupi heldur áfram að aukast við Sveinstind og mælist það nú um 1.350 rúmmetrar á sekúndu og hefur íshellan í Eystri-Skaftárkatli sigið um rúmlega 65 metra en við það rofnaði samband við GPS-tæki í katlinum.

Stöðufundur vegna hlaupsins verður hald­inn klukk­an 14 í dag. Þar mun Veður­stof­an ræða við lög­regl­una, al­manna­varn­ir og fleiri til að fara yfir stöðuna og end­ur­meta hana.

Skaftárhlaup hófst í gær og búist er við að hlaupið …
Skaftárhlaup hófst í gær og búist er við að hlaupið nái hámarki í dag. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert