Vöxtur vel greinanlegur í Skaftá

Rennsli í Skaftá við Sveinstind er enn að aukast og sýnir mælist rennslið nú 1.350 rúmmetrar á sekúndu. Vatnshæð heldur einnig áfram að aukast og mældist um 430 sentimetrar á 19 klukkustundum við Sveinstind.

Vöxtur er orðinn vel greinanlegur í ánni eins og meðfylgjandi myndband, sem Haukur Snorrason tók í morgun, sýnir. 

Útlit var fyrir að hlaupið hefði náð hámarki við Sveinstind í morgun en að mati Veðurstofunnar eru enn um nokkrir klukkutímar í að hámarki verði náð í hlaupinu sem nú stendur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá náttúruvársérfræðingi á Veðurstofunni hefur ferillinn beygt af og er vatn farið að renna út í hraunið og því verði að taka rennslistölum með varúð. 

Mælingar benda til þess að hlaupið verði ekki jafnstórt og fyrir þremur árum þegar rennslið mældist mest um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar mun fljúga ásamt vísindamönnum frá Veðurstofu Íslands yfir svæðið þar sem hlaupsins gætir seinna í dag. Almenningur er varaður við því að vera á ferð á þessum slóðum vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu, auk þess sem stór ísflikki geta brotnað úr jökulsporðinum og ofan hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert