Afleggjari í Eldhrauni rofinn vegna hlaupsins

Vegurinn inn að bænum Skál er ófær.
Vegurinn inn að bænum Skál er ófær. mbl.is/Jónas Erlendsson

Afleggjari af þjóðvegi eitt inn að bænum Skál í Eldhrauni hefur verið rofinn til að hleypa vatnsflaumnum fram hjá þjóðveginum. Að sögn Sveins K. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi, var búist við að vegurinn rofnaði sjálfkrafa en eftir að ljóst varð að svo yrði ekki var gripið til þessa ráðs. Engin byggð er í Skál en þar er sumarhús. 

Vatn úr Skaftárhlaupi er tekið að flæða inn á þjóðveginn við afleggjarann að bænum Skál í Eldhrauni. Afleggjarinn var rofinn á nokkrum stöðum fyrr í dag til að hleypa vatnsflauminum framhjá í von um að það myndi hlífa þjóðveginum.

Að sögn Jónasar Erlendssonar, fréttaritara Morgunblaðsins sem er á svæðinu, hefur hámarkshraði á vegkaflanum verið lækkaður niður í 50 kílómetra á klukkustund. Jónas segir að ekki sé mikil umferð um veginn og hún gangi vel.

Smávegis vatn hefur flætt inn á þjóðveginn.
Smávegis vatn hefur flætt inn á þjóðveginn. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Ef afleggjarinn hefði ekki verið rofinn hefði lón myndast á þjóðveginum, segir Sveinn. Þjóðvegurinn er eilítið blautur við afleggjarann inn að Skál en að öðru leyti gætir áhrifa flóðsins ekki á veginum.

Í samtali við mbl.is segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, að umræddur afleggjari hafi þegar farið í sundur á nokkrum stöðum. Ekki hafi þó þurft að grípa til þess ráðs að rjúfa aðra vegi.

Allt að vika í að rennsli verði eðlilegt

Rennsli við Sveinstind fer áfram minnkandi og mælist nú um 1.300 rúmmetrar á sekúndu, en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er raunverulegt rennsli árinnar þó líklega meira. Búast má við að dragi jafnt og þétt úr hlaupinu næstu daga en að nokkrir sólarhringar, og jafnvel allt að vika, séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný, sem er um 150-200 rúmmetrar á sekúndu.

Eystri-Skaftárketill virðist tæmdur og í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að vestari ketillinn sé einnig að tæmast. Óróamælar Veðurstofunnar sýni suðumerki úr báðum kötlum, sem er til marks um að þrýstingur hafi minnkað.

Ekki eru skilyrði til flugs yfir svæðið næstu daga vegna skýjahæðar og lítils skyggnis, segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is. Áfram verður þó fylgst grannt með gangi mála.

Þegar þessi mynd var tekin í Eldhrauni hafði vatnið ekki …
Þegar þessi mynd var tekin í Eldhrauni hafði vatnið ekki flætt inn á þjóðveginn. mbl.is/Jónas Erlendsson

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert