„Eins eðlilegt og hamfarir geta orðið“

Jökulvatn úr Skaftá er farið að renna meðfram þjóðveginum í …
Jökulvatn úr Skaftá er farið að renna meðfram þjóðveginum í Eldhrauni vestan Kirkjubæjarklausturs. mbl.is/Jónas Erlendsson

Jökulvatn úr Skaftá er farið að renna meðfram þjóðveginum í Eldhrauni vestan Kirkjubæjarklausturs. „Þetta er eins eðlilegt og hamfarir geta orðið, ég sé ekkert sem hefur ekki gerst áður,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík.

Hann telur litlar sem engar líkur á að vatn fari að flæða yfir þjóðveginn. „Það er ekkert óeðlilegt í stöðunni, þetta flæðir í gegnum hraunið eins og í fyrri hlaupum.“

Hlaupið náði hámarki rétt eftir miðnætti og hefur rennsli við Sveinstind farið lækkandi síðan þá og mælist nú um 1.400 rúmmetrar á sekúndu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Fara yfir Eldvatnsbrú þrátt fyrir lokanir

Rennsli fer enn hækkandi í Eldvatni við Ása og vatn flæðir út í Eldhraun. Við Eldvatnsbrú er vatnið farið að ná að brúarstólpum en Sveinn K. Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, segir í samtali við mbl.is að brúin virðist ætla að halda. 

Bændur á staðnum segja í samtali við fréttaritara Morgunblaðsins að enn eigi eftir að vaxa í ánni undir brúnni. Mikill jarðvegsgröftur á sér stað á bökkum árinnar og undir brúnni. Brú­in hef­ur verið lokuð fyr­ir bílaum­ferð síðan á föstudagskvöld og einnig hefur verið lokað fyrir um­ferð gangandi vegfaranda við brúna. Hjá­leið er opin um svo­kallaða Hrífu­nes­leið inn í Skaft­ár­tungu. Lögreglan mun áfram vakta svæðið en borið hefur á því að vegfarendur virði lokanir lögreglu að vettugi og gangi yfir brúna. 

Vatn er farið að ná að brúarstólpum við Eldvatnsbrú en …
Vatn er farið að ná að brúarstólpum við Eldvatnsbrú en talið er að brúin muni halda. mbl.is/Jónas Erlendsson

Kamar á floti

Áhrifa hlaupsins gætir víða á Suðausturlandi og hefur vatn flætt yfir tjaldsvæðið við Hrífunes, meðal annars með þeim afleiðingum að kamar fór á flot. Þá hefur einnig flætt yfir tún við Flögu í Skaftártungu.

Varnargarðar sem eyðilögðust í hlaupinu fyrir þremur árum hafa ekki verið endurnýjaðir og því hefur vatn tekið að flæða yfir hraun vestan við Ása. Enginn vegur er á svæðinu og því er engin hætta talin vera á ferðum.

Áhrifa hlaupsins gætir víða, meðal annars á tjaldsvæðinu við Hrífunes …
Áhrifa hlaupsins gætir víða, meðal annars á tjaldsvæðinu við Hrífunes þar sem kamar fór á flot. mbl.is/Jónas Erlendsson

Brennisteinslykt berst langar vegalengdir

Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr hlaupinu en að nokkrir sólarhringar séu í að Skaftá nái eðlilegu rennsli á ný.

Á mælitækjum Veðurstofunnar hefur mælst órói sem bendir til þess að suða sé hafin í jarðhitakerfinu undir jöklinum vegna þrýstingslækkunar. Því má gera ráð fyrir að Eystri-Skaftárketill sé að tæmast.

Tilkynnt hefur verið um brennisteinslykt á Suðausturlandi, t.d. í Meðallandi og í Öræfum. Einnig fannst sterk lykt vestan Skaftárjökuls í eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni í gær. „Lyktin getur borist langar vegalengdir og var m.a. tilkynnt um brennisteinslykt í Noregi í Skaftárhlaupi 2015,“ segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar. 

Jökulvatn hefur flætt yfir tún við Flögu í Skaftártungu.
Jökulvatn hefur flætt yfir tún við Flögu í Skaftártungu. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert