Þjóðveginum um Eldhraun lokað

Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir þjóðveginn við Eldhraun og hefur …
Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir þjóðveginn við Eldhraun og hefur veginum verið lokað. Ljósmynd/Aðsend

Þjóðveginum um Eldhraun, vestan við Holtsveg og Kirkjubæjarklaustur, hefur verið lokað vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæðir yfir veginn á um 500 metra kafla. „Þjóðvegurinn er að skemmast og það styttist í að hann rofni,“ segir Guðmundur Kristján Ragnarsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is. 

Ökumönnum austan Kirkjubæjarklausturs er beint um hjáleið við Meðallandsveg. Ástand vegarins er slæmt en honum hefur ekki verið viðhaldið og segir Guðmundur ástæðuna vera tímaskort í kjölfar Skaftárhlaups fyrir þremur árum auk þess sem veghefill Vegagerðarinnar sé bilaður. „Þetta er einbreiður malarvegur [að hluta] og leiðinlegur. Á honum er lausamöl og holur.“

Ökumenn verða því að fara sér hægt og búast má við umferðarteppu á svæðinu. Vegurinn er 53 kílómetra langur og mega ökumenn því búa sig undir það að ferðatími þeirra lengist töluvert, en um klukkutíma tekur að aka veginn. 

Hjáleiðin liggur um Meðallandsveg, malarveg sem er um 50-60 kílómetra …
Hjáleiðin liggur um Meðallandsveg, malarveg sem er um 50-60 kílómetra langur. mbl.is/kort

Vatn flæddi inn í bíla 

Áður en veginum var lokað hafði hámarkshraði verið lækkaður í 30 kílómetra á klukkstund og höfðu þó nokkrir bílar farið yfir vatnsflauminn. Gekk það að mestu áfallalaust en nokkur tilvik komu upp þar sem vatn flæddi inn í bíla líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. 

Guðmundur segir að ákveðið hafi verið að grípa til þess ráðs að loka veginum til að koma í veg fyrir frekara tjón á ökutækjum sem eiga leið um veginn. Auk þess er stutt í að þjóðvegurinn rofni. Óljóst er hversu lengi lokunin mun vara. 

Flætt hefur inn í nokkra bíla sem hafa keyrt í …
Flætt hefur inn í nokkra bíla sem hafa keyrt í gegnum vatnsflauminn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert