Útlit er fyrir að 500 metra kafli á þjóðvegi eitt í Eldhrauni verði lokaður í nótt. Guðmundur Kristján Ragnarsson hjá lögreglunni í Vík segir vatnselginn á veginum ekkert hafa minnkað síðustu klukkutímana þrátt fyrir aðgerðir Vegagerðarinnar en traktorsgrafa og beltagrafa hafa verið notaðar til að veita vatni af veginum. Þá hefur möl verið sturtað í vegkanta sem vatnið hefur brotið úr.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur umferð rúta og annarra stórra bíla um veginn verið leyfð á ábyrgð ökumanna og verður svo áfram í nótt. Svæðið verður mannað í nótt og mun starfsmaður áfram veita ráðleggingar til ökumanna sem hyggjast keyra gegnum vatnið.
Hjáleið er um Meðallandsveg, 53 kílómetra langan veg sem er að hluta til malarvegur og einbreiður. Guðmundur segir umferð um veginn hafa gengið ágætlega. Eitthvað er þó um að dekk hafi sprungið og bílar keyrt á ógætilegum hraða, „allt upp undir 100 kílómetra á klukkustund“. Hann ráðleggur ökumönnum að halda sig á um 60-70 kílómetra hraða.
Skaftárhlaup er að ganga niður en rennsli árinnar dregst hægt saman. Nú um klukkan átta mældist það tæpir 1.100 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind. „Það tekur alltaf mun lengri tíma að fara niður aftur,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.
Landhelgisgæslan mun fljúga með veðurfræðinga Veðurstofunnar yfir Skaftárjökul á morgun og kanna aðstæður en það var ekki hægt í dag vegna slæms skyggnis.