Vatnflaumur á þjóðvegi eitt í Eldhrauni hefur aukist frá í gær, þvert á það sem vonast var til. Ekki er búist við að vegurinn verði opnaður almennri umferð í dag, segir Guðmundur Kristján Ragnarsson hjá Vegagerðinni. Traktorsgrafa og beltagrafa voru í gær notaðar til að veita vatni af veginum. Spurður hvort nýjar leiðir verði farnar í dag segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, að ýmsar leiðir séu til skoðunar svo sem að rjúfa veginn til að hleypa af vatni. Hann sé þó ekki viss um gagnsemi þess.
Lokaði kaflinn er um 500 metra langur, um það bil 1-2 kílómetra frá afleggjaranum að bænum Skál en sá afleggjari var einmitt rofinn á sunnudag í von um að það myndi hlífa þjóðveginum. Starfsmenn Vegagerðarinnar verða á svæðinu öllum stundum meðan á lokun stendur og leiðbeina þeim sem eiga leið um. Þá er rútum og stærri bílum heimilt að keyra í gegn á eigin ábyrgð. Þjóðvegurinn er þó enn opinn rútum og stærri bílum.
Hjáleiðin er enn um Meðallandsveg, 53 kílómetra langan veg sem er að hluta til malarvegur og einbreiður. Ökumönnum er ráðlagt að aka hann varlega; á 60-70 kílómetra hraða. Guðmundur segir veginn hafa batnað frá því umferð var beint um hann í gærmorgun. „Bændur segja að hann hafi keyrst til. Hann er orðinn miklu harðari.“