Sérfræðingur í náttúruvám hjá Veðurstofu Íslands segir að miðað við þeirra mæla sé rennsli í Skaftá nú orðið eðlilegt miðað við árstíma. Því sé Skaftárhlaupi lokið.
„Það má segja að frá okkur séð þá er hlaupið búið. Þegar þetta er eðlilegt þá er rennslið um 140 rúmmetrar á sekúndu. Þetta er í rauninni komið í eðlilegt horf,“ segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.
Hún segir í raun enga óvissuþætti fyrir hendi. „Þeir eru í raun búnir að tæma sig þessir katlar. Við eigum ekki von á neinu öðru í augnablikinu eða næstu mánuðina,“ segir Hildur María.
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, segir að öllum aðgerðum í eldhrauninu, í dyngjunum þar sem var þrenging og vatn flæddi yfir vegi, sé lokið fyrir utan lokafrágang og smávægilegar viðgerðir. „Það eru engin höft á umferð þar. Svo verður opnuð núna Eldvatnsbrú með takmörkunum, upp á fimm tonn og 2,30 metra á breidd,“ segir Ágúst.
Hann segir að vegirnir hafi sloppið vel undan hlaupinu. „Klæðningin undir var heil, nema bara rétt brúnirnar og kantar. Þeir voru skemmdir og tættir en það truflar ekki umferðina frá því að keyra í gegn. Við lögum það utan frá. Við vorum með 30 km hámarkshraða þarna en núna er þetta komið upp í 90 km eins og annað,“ segir Ágúst.
Ágúst segir að vegagerðin muni þó halda áfram að fylgjast með aðstæðum á svæðinu en í augnablikinu viti hann ekki til þess að ráðast þurfi í neinar aðgerðir heldur þurfi aðeins að fylgjast með og laga smáskemmdir.
„Við teljum að þessu sé lokið í bili,“ segir Ágúst að lokum.