Allir verði í húsi í vetur

Frá fundinum í dag. Hagsmunaaðilar greindu frá sinni sýn á …
Frá fundinum í dag. Hagsmunaaðilar greindu frá sinni sýn á málefni heimilislausra í Reykjavík og tillögur að lausnum. mbl.is/Arnþór

Velferðarráð Reykjavíkurborgar fundar nú með hagsmunaaðilum um málefni heimilislausra í borginni og er fundurinn fyrsta skref að nýrri stefnu Reykjavíkurborgar í málaflokknum. 

Heiða Björg Hilm­is­dótt­ir, formaður vel­ferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir forgangsmál að húsnæði fyrir heimilislausa sé tryggt sem fyrst svo heimilislausir geti haft þak yfir höfuðið í vetur. Þá segir hún einnig mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk lendi í þeim aðstæðum að vera skilgreint utangarðs í Reykjavík.

Tillögur um úrbætur í málaflokknum eru neyðarskýli fyrir yngri utangarðsmenn, fjölgun smáhýsa og kaup á gistiheimili sem hægt er að breyta í 25 íbúðir fyrir heimilislausa.

Ætla að vinna hratt 

Heiða Björg segir hina nýju stefnumótun í góðum farvegi. „Mér finnst þetta góð byrjun. Við leitum eftir skoðunum og þekkingu þeirra sem eru að vinna í þessum málum og ætlum að vinna hratt og vel í samráði við þessa aðila.“

Hún segir að rauði þráðurinn sé að tryggja húsnæði fyrir heimilislausa sem fyrst. „Fyrst og fremst erum við að hugsa um að grípa til þeirra aðgerða sem við getum gert til þess að aðstoða þá sem eru í þessum aðstæðum núna. En auðvitað erum við líka að koma í veg fyrir að fólk lendi í þeim aðstæðum að vera skilgreint utangarðs í Reykjavík, það viljum við ekki.“

Leggja til úrbætur

Þá segir Heiða Björg mikilvægt að tengja saman úrræði sveitarfélaga, ríkisins og áfangaheimila til þess að fólk festist síður á mismunandi stöðum. „Það eru allir af vilja gerðir, margir að reka ýmiss konar úrræði en þeir upplifa að keðjan, fólk flytjist á milli eftir bata eða ástandi hverju sinni, að hún þurfi að ganga betur.“

Þær úrbótatillögur sem liggja fyrir eru að bæta við neyðarskýlum fyrir unga utangarðsmenn og fjölga smáhýsum auk þess að borgin festi kaup á gistiheimili sem hægt er að breyta í 25 íbúðir. „Við erum bara að vonast til þess að það gæti verið komið í gagnið innan þriggja mánaða ef það gengur í gegn og borgarráð samþykkir á næsta fundi sínum. Okkar stefna er að það séu allir í húsi í vetur,“ segir Heiða Björg. 

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert