Aukafundur velferðarráðs Reykjavíkurborgar stendur nú yfir en þar verður farið yfir þann vanda sem blasir við í málefnum heimilislausra í borginni. Tilgangur fundarins er að leita úrbóta í málefnum utangarðsfólks með því að varpa sem víðtækustu ljósi á vandann og hlusta á sjónarmið þeirra sem standa honum næst.
Þá mun fundurinn marka fyrstu skref í nýrri stefnumótun Reykjavíkurborgar en núverandi stefna borgarinnar í málefnum utangarðsfólks rennur út á þessu ári.
Hagsmunaaðilum var því boðið að koma á fundinn og þeir beðnir um að undirbúa svör við þremur spurningum. Fundurinn stendur til kl. 16 í dag.
Þegar hafði verið boðað til aukafundar í borgarráði um síðustu mánaðamót og lýstu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir vonbrigðum í kjölfarið með að sá fundur hefði ekki borið þann árangur sem vonir stóðu til.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, sagði í samtali við RÚV í dag, að fyrirhugað væri á seinni hluta fundarins að samþykkja að koma á fót nýju neyðarskýli fyrir yngri karlmenn.
Þeim hagsmunaaðilum sem boðið var á fundinn var gert að svara þremur spurningum og gera grein fyrir svörum sínum á fundinum. Þær eru:
1. Hver er að mati þinnar stofnunar/samtaka helsti vandi sem blasir við utangarðsfólki í dag?
2. Hverjar eru lausnir á þeim vanda?
3. Hvernig á að forgangsraða lausnum?