Fjölmenni hefur safnast í miðborg Reykjavíkur þar sem árleg gleðiganga Hinsegin daga fer fram. Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum hafa, venju samkvæmt, litirnir tekið öll völd sem og góða skapið.
Gangan lagði af stað frá Sæbraut við Hörpu klukkan tvö og er förinni heitið í Hljómskálagarð þar sem útitónleikar taka við.
Vegna göngunnar var nærliggjandi götum lokað kl. 10 og verður lokað til 18.00.
Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að það væri mikill metnaður í fólki og nokkrir stórir hópar sem væru að taka þátt saman og fjöldinn er svipaður og hefur verið.
„Hóparnir eru eitthvað ríflega 30 núna sem eru með formlega þátttöku í göngunni en síðan eru auðvitað allir velkomnir að koma og fylgjast með og slást í hópinn í lok göngu og þramma með okkur í Hljómskálagarðinn,“ sagði Gunnlaugur.