Óvissustigi vegna Skaftárhlaups sem er yfirstaðið hefur verið aflétt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef almannavarna.
Jökulhlaup úr Eystri-Skaftárkatli hófst 3. ágúst og þá var óvissustigi almannavarna lýst yfir. Það er gert þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Sex dögum eftir að hlaupið hófst var því lokið. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði að rennsli í Skaftá væri þá orðið eðlilegt miðað við árstíma og því væri hlaupinu lokið.
Skaftárhlaupið var það rúmmálsmesta frá því mælingar hófust. 500 gígalítrar (500 milljarðar lítra) vatns höfðu runnið til sjávar úr Skaftá frá því hlaupið hófst og þar til því lauk.