„Ef ein pera fer þá slokknar á seríunni“

Ragnheiður Elín segir hollvinasamtökin ekki ætla að gefast upp og …
Ragnheiður Elín segir hollvinasamtökin ekki ætla að gefast upp og íhuga þau nú að kæra úrskurð Minjastofnunar. mbl.is/Sigurður Bogi

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti í dag umsókn um byggingarleyfi sem felur í sér niðurrif á fyrrverandi Sundhöll Keflavíkur. Erindið var fyrst tekið fyrir á fundi ráðsins í mars en var frestað þar sem deiliskipulag lá ekki fyrir. Miklar deilur hafa skapast um fyrirhugað niðurrif sundhallarinnar og stofnuð voru hollvinasamtök sem berjast fyrir friðun hennar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er ein þeirra sem vilja bjarga sundhöllinni og hefur verið talsmaður hollvinasamtakanna. Í samtali við mbl.is segir hún niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs alveg ómögulega, en samtökin skoða nú að kæra úrskurð Minjastofnunar sem taldi sér ekki fært að leggja fram tillögu um friðlýsingu hússins við mennta- og menningarmálaráðherra.

„Það sem við erum að gera núna er að kanna þann grundvöll, ásamt okkar lögfræðingum, hvort það sé tækt að kæra ákvörðun Minjastofnunar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Meðal annars á þeim grunni að röksemdafærslan og öll rökin í úrskurðinum eru í ósamræmi við niðurstöðuna, að okkar mati. Það er talað um að byggingin hafi hátt varðveislugildi og að sveitarfélögin hafi þeim skyldum að gegna að vernda menningararfinn. Reykjanesbær er snupraður í þessum úrskurði, en lesa má úr honum að bærinn hafi ekki sinnt sínum skyldum og bent er á önnur sveitarfélög sem hafa gert það.“

Ragnheiður Elín segir sundhöllina vera mikilvæga fyrir menningarsögu Reykjanesbæjar og …
Ragnheiður Elín segir sundhöllina vera mikilvæga fyrir menningarsögu Reykjanesbæjar og byggingarsögu Íslendinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnheiði Elínu og finnst alveg borðleggjandi að kanna alla möguleika í þeim tilgangi að vernda sundhöllina. Hollvinasamtökin hafa nú þegar kært samþykkt um deiliskipulag til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og bíða nú niðurstöðu.

„Við erum ekki alveg tilbúin að gefast upp og teljum þessa byggingu vera það markverða og mikilvæga fyrir menningarsögu Reykjanesbæjar og byggingarsögu okkar Íslendinga. Sundhöllin er hluti af sundhallaseríu sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Þær eru í Hafnarfirði, Seyðisfirði, Akranesi, Ísafirði og svo auðvitað Sundhöll Reykjavíkur og margar fleiri. Maður veit það með jólaseríurnar, ef ein pera fer þá slokknar á seríunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert